Erlent

Tæplega fjörutíu létust í troðningi í nótt

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fjölmargir slösuðust auk þeirra sem létu lífið.
Fjölmargir slösuðust auk þeirra sem létu lífið. Vísir/AP
Tæplega fjörutíu létust og tæplega fimmtíu slösuðust í fjölmennum nýársfögnuði í Sjanghæ í Kína í gær. Rétt fyrir miðnætti tók hópurinn sem hugðist fagna nýja árinu við Huangpu á að ryðjast svo tugir manna urðu undir.

„Það var einhver að rífa í hár mitt að aftan, brjótast um og anda þungt,“ sagði Zuo Zhijian  sem var á staðnum en hann sagðist ekki geta hafa hreyft fæturnar vegna troðnings. „Stúlka fyrir framan mig hélt örvæntingarfull í mig, bað um hjálp og sagðist ekki þola við lengur. Það var líka stúlka alveg hreyfingarlaus fyrir neðan mig.“ CNN greinir frá. Zuo segir afleiðingarnar hafa verið svo hrikalegar að nokkrir hinna látnu hafi verið óþekkjanlegir vegna áverka.

Samkvæmt öðru vitni, Xiao Ji, grétu sumir á meðan aðrir reyndi að lífga við meðvitundarlaus fórnarlömb ruðningsins. Hann segir lögreglumenn hafa verið á staðnum.

Yfirvöld rannsaka nú hvað orsakaði ruðninginn en ekki er fyllilega ljóst hvað gerðist. Samkvæmt CNN hélt ónefnt vitni því fram að lætin hafi hafist þegar afsláttarmiðum sem litu út eins og dollaraseðlar var fleygt af þriðju hæð húss við hópinn. En þetta hefur ekki fengist staðfest af öðrum vitnum. Yfirvöld á staðnum höfðu fært nýársfögnuðinn á nýjan, lokaðri stað eftir umferðaröngþveiti ársins áður.

Fjöldi fólks kom saman á slysstaðnum í dag til þess að votta samúð sína með blómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×