Fótbolti

Messi og Cristiano hafa aldrei kosið hvorn annan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi urðu enn á ný í tveimur efstu sætunum í kvöld þegar FIFA verðlaunaði besta knattspyrnumann heims með Gullboltanum. Cristiano Ronaldo vann annað árið í röð og Messi varð aftur að sætta sig við annað sætið.

Lionel Messi vann Gullboltann fjórum sinnum í röð frá 2009 til 2012 en Ronaldo vann Gullboltann í fyrsta sinn árið 2008. Enginn annar leikmaður hefur því verið útnefndur besti knattspyrnumaður heims frá og með árinu 2008.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa báðir atkvæðarétt í kjörinu, Ronaldo sem fyrirliði portúgalska landsliðsins og Messi sem fyrirliði argentínska landsliðsins. Enn á ný kusu þeir þó ekki hvorn annan í þessari kosningu en þeir hafa aldrei kosið hvorn annan.  Þeir komast ekki einu sinni á topp þrjú hjá hvorum öðrum.

Lionel Messi var með liðsfélaga sína í efstu þremur sætunum. Angel Di María var í 1. sæti hjá honum, Andrés Iniesta í öðru sætinu og Javier Mascherano í því þriðja.

Cristiano Ronaldo var með Sergio Ramos í fyrsta sæti, Gareth Bale í öðru sæti og Karim Benzema í því þriðja en allir þessir leikmenn spila með Real Madrid.

Gerardo Martino, landsliðsþjálfari Argentínu, var með þá Lionel Messi, Angel Di Maria og Javier Mascherano á sínum lista en Fernando Santos, þjálfari Portúgals var með þá Cristiano Ronaldo, Manuel Neuer og Arjen Robben á sínum lista.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×