Viðskipti innlent

Stjórnarmenn höfðu ekki hugmynd um millifærsluna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árni Oddur Þórðarson, Inga Jóna Þórðardóttir, Pálmi Haraldsson og Hreggviður Jónsson báru öll vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Árni Oddur Þórðarson, Inga Jóna Þórðardóttir, Pálmi Haraldsson og Hreggviður Jónsson báru öll vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísir
Þrír þáverandi stjórnarmenn í FL Group vissu ekki af milljarða millifærslu af reikningi félagsins til Fons sem framkvæmd var í apríl 2005 fyrr en í júní. Þetta kom fram í vitnisburðum þeirra í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð í fjárdráttarmáli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni.

Stjórnarmennirnir þrír, Hreggviður Jónsson, Árni Oddur Þórðarson og Inga Jóna Þórðardóttir, sögðu sig öll úr stjórninni þann 30. júní 2005. Einn þeirra, Hreggviður, sagði fyrir dómi í dag að hann hafi meðal annars sagt sig úr stjórninni vegna umræddrar millifærslu.

Hreggviður kvaðst ekki muna hvenær forstjóri félagsins, Ragnhildur Geirsdóttir, hafi sagt honum frá millifærslunni, en minnti þó að það hafi verið í byrjun júni. Kom fram í samtali þeirra að forstjórann grunaði að peningarnir hefðu farið til Fons. Hreggviður sagðist þó aldrei hafa séð neina staðfestingu á því fyrr en gögn voru borin undir hann í vitnaleiðslum hjá lögreglu.

Inga Jóna kvaðst hafa fengið upplýsingar um millifærsluna frá Ragnhildi þann 30. júní 2005. Ragnhildur hafi þá greint henni frá því að peningar hafi horfið af reikningi félagsins í Lúxemborg og hún vildi að Inga Jóna vissi af þessari færslu sem Ragnhildur hafði ekki fengið neinar skýringar á.

Sjá einnig: „Pönkuðust" í Hannesi út af millifærslunni

Ekki stóð til að FL Group tæki þátt í kaupum Fons á Sterling

Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons á þeim tíma sem meint brot átti sér stað og stjórnarmaður í FL Group, gaf einnig skýrslu fyrir dómi í dag. Hann kvaðst á vormánuðum hafa þekkt til Hannesar Smárasonar en ekki mikið meira en það.

Hann sagði þá ekki hafa haft nein áform um það að FL Group tæki þátt í kaupum Fons á Sterling-flugfélaginu en í ákæru kemur fram að sama dag og millifærslan var framkvæmd var peningunum skipt yfir í danskar krónur á reikningi Fons. 

Nam upphæðin þá rúmlega 260 milljónum danskra króna. Fons hafi svo í framhaldinu tekið 375 milljónir danskra króna af reikningnum og millifært á þáverandi eiganda Sterling.

Pálmi þvertók hins vegar fyrir að til hafi staðið að FL Group tæki þátt í kaupunum, eins og saksóknari telur, en hann bar ýmis gögn undir Pálma því til sönnunar sem Pálmi kvaðst ekki kannast við. Þá sagðist hann ekki muna mikið varðandi ýmis atriði málsins þar sem langt væri um liðið.  

Málflutningur fer fram á morgun og málið verður síðan dómtekið. Verði Hannes Smárason fundinn sekur um fjárdrátt gæti hann átt yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×