Innlent

Vill að reykvísk börn fái líka að njóta sólmyrkvans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Það er mjög tignarlegt að fylgjast með þessu og þess vegna nákvæmlega viljum við gera krökkunum það kleift og læra eitthvað um náttúruna í leiðinni. Það er það eina sem vakir fyrir okkur,“ segir Sævar.
"Það er mjög tignarlegt að fylgjast með þessu og þess vegna nákvæmlega viljum við gera krökkunum það kleift og læra eitthvað um náttúruna í leiðinni. Það er það eina sem vakir fyrir okkur,“ segir Sævar. vísir/anton
Mesti sólmyrkvi hérlendis í sextíu ár verður þann 20. mars næstkomandi. Í tilefni þess ætla stjörnuáhugamenn að gefa öllum grunnskólabörnum landsins sérstök sólmyrkvagleraugu.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness í samstarfi við Hótel Rangá hyggjast leyfa öllum grunnskólabörnum, sem eru 45 þúsund talsins, að berja sólmyrkvann augum á sem öruggastan hátt. Án gleraugnanna er erfitt að upplifa þennan stórmerka atburð því augun eru afar viðkvæm fyrir geislum sólarinnar og því mikilvægt að verja augun með sérstökum hlífðarbúnaði.



Deildarmyrkvi á sólu árið 2008, séð frá Auckland í Ástralíu.vísir/
Ómögulegt að fá ómerktar vörur

Reglur Reykjavíkurborgar sem kveða á um að ekki megi afhenda börnum gjafir á skólatíma, séu á gjöfunum merkingar, hefur þó gert stjörnuáhugamönnum heldur erfitt fyrir. Því munu fulltrúar Stjörnuskoðunarfélagsins funda með skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar á næstu dögum.

„Til þess að fylgja eftir þessum reglum hjá Reykjavíkurborg þá neyðumst við til að hafa gleraugun ómerkt, sem gerir verkefnið enn erfiðara en það þyrfti að vera. Það er útilokað að fá nokkurn skapaðan hlut í heiminum án þses að hann sé merktur fyrirtækinu sem framleiðir hann. En gleraugun eru hins vegar frá fyrirtæki sem er ekki að selja eitt eða neitt á Íslandi þannig að við vonum að þessi merking muni ekki skipta máli,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Sjá einnig: Börn í Reykjavík mega ekki fá tannbursta



Gjafirnar í fræðsluskyni

Kostnaður við gjafirnar eru rúmar þrjár milljónir. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness mun greiða tvær milljónir og Hótel Rangá milljón. Þá verður börnunum boðið að fylgjast með myrkvanum í stjörnuskoðunarhúsinu við hótelið.

„Næsti myrkvi, sem verður svona mikill, verður ekki fyrr en árið 2026. Það er mjög tignarlegt að fylgjast með þessu og þess vegna nákvæmlega viljum við gera krökkunum það kleift og læra eitthvað um náttúruna í leiðinni. Það er það eina sem vakir fyrir okkur,“ segir Sævar.

„Ef þeir hafna því þá verða þeir bara að eiga það við sig að koma í veg fyrir að börn í Reykjavík sjái þetta. En ég mun finna einhverja leið til að koma gleraugunum til krakkanna, hvernig sem verður.“ 

„Ég mun finna einhverja leið til að koma gleraugunum til krakkanna, hvernig sem verðurm,“ segir Sævar.vísir/getty
Hugmyndina að gjöfunum á Sævar.

Hún er jafnframt hluti af Alþjóðlegu ári ljóssins, sem er verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna.

„Það er verið að vekja fólk til umhugsunar um ljós og mikilvægi þess og hvernig ljós tengjast okkur í daglegu lífi – í vísindum, listum og hverju sem er. Ég fékk þessa hugmynd eina nóttina, þetta er svo rosalega tignarlegt sjónarspil þannig að það er um að gera að nýta tækifærið. Hvar er betri sýning á ljósinu sjálfu en með sólinni sjálfri?“ segir hann.

Sjá einnig: Vilja ekki að börn séu sett í erfiðar aðstæður

Þeir sem hafa áhuga á að festa kaup á sólmyrkvagleraugum geta gert það í gegnum Stjörnuskoðunarvefinn eða hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Svona mun sólmyrkvinn líta út, séður úr Reykjavík, þegar hann nær hámarki klukkan 9.37, föstudaginn 20. mars. Örþunn rönd mun þá sjást af sólinni.
Magnað sjónarspil í örfáar mínútur

Tunglið mun hylja um 97,5 prósent sólar, séð úr Reykjavík, þegar myrkvinn nær hámarki klukkan 09.37. Þá mun tunglið myrkva 99,4 prósent sólar, séð frá Austurlandi, þar sem hann verður dimmastur.

Dökkur himinn mun þó aðeins sjást í nokkrar mínútur því strax klukkan 09.40 fer að birta verulega á ný.

Sjá einnig: Fullkomnasta stjörnuskoðunarhús landsins

Þar sem sólin hylst ekki að fullu kallast þetta deildarmyrkvi en frá árinu 1954 hefur enginn slíkur náð að hylja sól meira en 77 prósent hérlendis, að sögn Sævars Helga. Myrkvinn þann 20. mars stendur yfir í tvær klukkustundir og lýkur honum klukkan 10.39, þegar tunglið færist út úr skífu sólar.

Sólmyrkvar af þessu tagi eru það sjaldgæfir að þessi verður sá dimmasti á Íslandi í 60 ár, og þau sem missa af honum þurfa að bíða í ellefu ár eftir næsta tækifæri til að sjá almyrkva, sem verður árið 2026.

Meiri fróðleik um sólmyrkvann 20. mars má finna á Stjörnufræðivefnum og astro.is.

Hér má sjá tímasetningar fyrir sólmyrkvann í Reykjavík og á Suðurlandi 20. mars næstkomandi.
Sævar Bragi var í viðtali á Stöð 2, skömmu eftir að stjörnuskoðunarhúsið var tekið í notkun.
Hér má síðan sjá áhugaverð fræðslumyndbönd um sólmyrkva. Annars vegar frá BBC, sem fjallaði um sólmyrkva árið 2010. Hins vegar um deildarmyrkva á sólu í Ástralíu árið 2012.

Tengdar fréttir

Vilja ekki að börnin séu sett í erfiðar aðstæður

"Reglurnar eru alveg skýrar með það og ekki hægt að heimila að gefa börnum gjafir frá fyrirtækjum á skólatíma,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá árinu 1954

Sólmyrkvi, sá mesti hérlendis í sextíu ár, verður þann 20. mars næstkomandi, eftir tæpa þrjá mánuði, - þá rökkvast himinn í nokkrar mínútur þegar venjulega er hábjartur dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×