Innlent

Ekkert bólar á bengalköttunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekkert hefur spurst til Bengal kattanna þriggja sem stolið var úr skemmu við bæinn Nátthaga í Ölfusi þann 21. janúar. Lögreglan fékk hefur fengið eina ábendingu og var henni fylgt eftir, en kettirnir fundust ekki. Ólafur Sturla Njálsson, eigandi kattanna segir fjölda fólks hjálpa honum við leitina.

„Það eru allir að fylgjast með, en það hefur ekkert komið upp neins staðar. Ég er sjálfur búinn að liggja svo mikið á netinu að ég er hættur að geta horft á skjáinn,“ segir Ólafur.

Kettirnir voru á læstu svæði í skemmunni og hafði læsingin verið brotin upp. Í fyrstu var talið að fjórum hefði verið stolið en einn þeirra fannst skömmu seinna.

Sjá einnig: Bengalkötturinn Kiss Me fundinn.

Ólafur fann kvenmannsföt í snjónum við Nátthaga. Nánar tiltekið brjóstahaldara númer 34D og buxur.

„Þetta er greinilega fólk sem veit ekki hvað það er með í höndunum eða vill eiga kettina sjálft. Einhver flón sem halda að þau geti grætt á þeim, en það verður ekki,“ segir Ólafur. Kettirnir eru örmerktir svo erfitt er að selja þá.

Sjá einnig: Kattastuldur í Nátthaga: Brjóstahaldari númer 34D á meðal sönnunargagna.

Bengal kettir geta verið mjög háværir líði þeim illa. „Fressið er með mjög háa sópran rödd og hann gat æft hana svoleiðis upp í sumar, að hann gat svo sannarlega látið vita af sér yfir stórt svæði.“ Ábendingin sem lögreglan hefur kannað var vegna svona gargs, en ekkert kom úr þeirri ábendingu.

Ólafur segir að fjöldi fólks hafi boðið fram aðstoð sína við að finna kettina. „Þau eru bókstaflega á ferðinni. Það er þannig að sumir eru bara komnir á stúfanna. Svo hafa einar sjö vinkonur sett á Facebook að þær séu tilbúnar að taka við köttunum og gefa upp símanúmer og heimilisföng. Þær eru svo kraftmiklar að ég á ekki til orð.“

„Löggan er alltaf að gera og þeir eru örugglega orðnir þreyttir á mér, því ég er búinn að hringja svo oft í þá. Þeir eru að gera sitt eins og þeir geta en það eru auðvitað önnur verkefni hjá þeim líka. Örugglega miklu mikilvægara en kattahvarf.“

„Nú er bara að bíða og sjá og vona að það komi fleiri ábendingar.“

Ólafur þiggur allar ábendingar sem fólk gæti búið yfir og getur tekið við þeim í einkaskilaboðum á Facebook.




Tengdar fréttir

Fjórum bengalköttum stolið í Ölfusi

Brotist var inn í skemmu við bæinn Nátthaga í Ölfusi einhvern tímann á tímabilinu frá klukkan tvö í gærdag til klukkan sjö í gærkvöldi og þaðan stolið fjórum bengalköttum, tveimur högnum og tveimur læðum, sem þar eru notaðir til undaneldis.

Kattaþjófarnir í Ölfusi ófundnir

Ekkert hefur enn spurst til Bengalkattanna fjögurra, sem stolið var úr skemmu að bænum Nátthaga í Ölfusi í fyrradag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×