Innlent

25 stórmeistarar skráðir til leiks

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Agnar Tómas Möller, fyrir hönd Gamma, Friðrik Ólafsson og Gunnar Björnsson við undrirritun samningsins.
Agnar Tómas Möller, fyrir hönd Gamma, Friðrik Ólafsson og Gunnar Björnsson við undrirritun samningsins. mynd/skáksamband íslands

Í dag, 26. janúar, er skákdagurinn haldinn hátíðlegur á Íslandi. Honum var valinn þessi tími árið 2012 þar sem þetta er fæðingardagur Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslands í skák.



Í tilefni dagsins undirrituðu Skáksamband Íslands og GAMMA samning þess efnis að GAMMA verði aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins næstu fjögur ár. Mótið fer fram dagana 10.-18. mars næstkomandi í Hörpu. Við sama tilefni var nýtt merki mótsins afhjúpað.



Nú þegar hafa 25 stórmeistarar skráð sig til leiks á Reykjavíkurskákmótinu og líklegt að þeim muni fjölga áður en það hefst. Sá þekktasti er aserski ofurstórmeistarinn Shakhriyar Mamedyarov sem í augnablikinu er þrettándi sterkasti skákmaður heimsins.



„Öflugur stuðningur GAMMA tryggir mótinu áframhaldandi umgjörð við hæfi. Áherslur félagsins á fagmennsku og árangur falla vel að framtíðarsýn Skáksambandsins, sem væntir góðs af samstarfinu ekki síst varðandi mótið í ár og 80 ára afmælismót Friðriks Ólafssonar,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins.



Metþátttaka var í fyrra þegar 255 skákmenn frá 35 löndum tóku þátt á Reykjavíkurskákmótinu. Mótið nýtur mikillar virðingar og var í fyrra valið næst besta opna skákmót heims af samtökum atvinnuskákmanna en mörg hundruð opin mót eru haldin um allan heim á hverju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×