Íslenska liðið reif sig upp eftir útreiðina gegn Tékkum og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum með þriggja marka sigri á Egyptum sem voru þegar búnir að tryggja sig áfram.
Sumir gerðu að því skóna að Egyptar hefðu ekki gefið sig alla í leikinn til að sleppa því að mæta Dönum í 16-liða úrslitum og Spánverjum í 8-liða úrslitum ef til þess kæmi.
Gaupi blés á allt slíkt tal í þætti kvöldsins.
„Auðvitað geta menn sagt að Egyptar byrjuðu ekki með sitt sterkasta lið en þeir Mohamed og Elahmar, sem er einn besti leikmaður keppninnar, hafa ekki byrjað inn á í öllum leikjum Egypta.
„Eini leikmaðurinn sem byrjaði ekki hjá Egyptum, sem hefði venjulega byrjað, var markvörðurinn (Karim Handawy).
„En það er eðlilegt að menn séu að hvíla og kannski má segja að þeir hafi ekki náð sér upp á tærnar, verandi öruggir áfram í 16-liða úrslitin,“ sagði Gaupi og bætti við að með þessu væri verið að tala niður til íslenska liðsins.
„Það er alltaf leiðinlegt þegar við sjáum á samfélagsmiðlum og jafnvel víðar að menn eru að tala þetta niður og segja að Egyptarnir hafi verið að leika sér að því að tapa.
„Mér finnst verið að tala niður til leikmanna íslenska landsliðsins í handbolta. Þetta eru strákar sem hafa náð frábærum árangri og þetta eru oft menn úr öðrum íþróttagreinum sem gera svona hluti. Þetta er til skammar.“
Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.