Erlent

Obama íhugar að útvega Úkraínuher vopn

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama fundaði nú síðdegis með Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem hefur talað gegn því að Bandaríkjastjórn útvegi Úkraínuher vopn.
Barack Obama fundaði nú síðdegis með Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem hefur talað gegn því að Bandaríkjastjórn útvegi Úkraínuher vopn. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir Bandaríkjastjórn nú íhuga að útvega Úkraínuher vopn, takist ekki að semja um lausn deilunnar í austurhluta Úkraínu.

Obama sagði Rússlandsstjórn ekki hafa staðið við neinar skuldbindingar sem samið var um í friðarsáttmálanum sem skrifað var undir í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk í september.

Obama fundaði nú síðdegis með Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem hefur talað gegn því að Bandaríkjastjórn útvegi Úkraínuher vopn. Í frétt BBC segir að Obama sé undir talsverðum þrýstingi heima fyrir að útvega Úkraínuher vopn.

Rússlandsstjórn hefur hafnað ásökunum um að hafa sent mannafla og vopn til aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Hörð átök hafa staðið milli úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna í borginni Debaltseve síðustu daga.

Talsmaður Úkraínustjórnar sagði fyrr í dag að níu hermenn og að minnsta kosti sjö óbreyttir borgarar hafi látist í átökum síðasta sólarhringinn.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti íhugar nú nýja friðaráætlun sem Merkel og Francois Hollande Frakklandsforseti kynntu fyrir honum í síðustu viku, en hann kennir sjálfur Vesturlöndum um ástandið í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Enginn setur Pútín úrslitakosti

Talsmaður stjórnvalda í Moskvu segir að forseti Rússlands verði ekki nauðbeygður til friðar í Úkraínu.

Minsk staður friðarfundar

Leiðtogar fjögurra þjóða munu koma saman í höfuðborg Hvíta-Rússlands í vikunni og freista þess að koma á friði í Úkraínu. Forsetar stríðandi fylkinga segjast bjartsýnir á að niðurstaða fundarins verði jákvæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×