Innlent

Merkel segir hana og Hollande ekki hlutlausa milligöngumenn

Heimir Már Pétursson skrifar
Varaforseti Bandaríkjanna segir umheiminn ekki geta liðið að Pútín Rússlandsforseti dragi upp nýtt kort af Evrópu með stuðningi við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Tímabundið vopnahlé var gert við borgina Debaltseve í austurhluta Úkraínu í dag á meðan óbreyttir borgarar voru fluttir frá borginni.

Angela Merkel kanslari Þýskaland og Francois Hollande forseti Frakklands komu til viðræðna við Vladimir Pútin forseta Rússlands í Moskvu í dag, til að freista þess að fá hann til að láta af hernaðarafskiptum Rússa í austuhluta Úkraínu og vopnasendingum til aðskilnaðarsinna.

Þá þrýsta þau á Pútín að beita sér fyrir vopnahléi og friðarviðræðum stríðandi fylkinga. En átökin í Úkraínu hafa harðnað að undanförnu með tilheyrandi mannfalli.

„Þess vegna höfum við ákveðið að gera allt sem í okkar valdi stendur, með beinni heimsókn til Kænugarðs í gær og Moskvu í dag, til að þrýsta á að blóðbaðinu linni eins fljótt og verða má og að friðarsamkomulagið sem undirritað var í Minsk fyrir áramót verði virt,“ sagði Merkel skömmu fyrir brottför hennar og Holland til Moskvu.

Merkel varaði þó við bjartsýni en sagði að hún og Hollande væru sannfærð um að hernaðarátök væru ekki leið til lausnar mála í Úkraínu.

„Þetta er spurning um frið og að varðveita friðinn í Evrópu. Þetta er spurning um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem er hluti af því að varðveita friðinn í Evrópu,“ sagði Merkel. Hún muni aldrei skipta sér af svæðisbundnum málum sjálfstæðra þjóða. Það sé á valdi hverrar þjóðar fyrir sig að leiða slík mál til lykta. En hún ítrekaði hins vegar að hún og forseti Frakklands færi ekki á fund Rússlandsforseta sem hlutlausir milligöngumenn.

„Þetta er spurning um þýska hagsmuni, franska hagsmuni og ofar öllu hagsmuni Evrópu,“ sagði Merkel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×