Erlent

Samið um vopnahlé til að rýma Debaltseve

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu með Petró Pórósjenkó í gær.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu með Petró Pórósjenkó í gær. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar hafa náð samkomulagi um tímabundið vopnahlé af mannúðarástæðum. Er það gert til að gefa óbreyttum borgurum Debaltseve í austurhluta Úkraínu færi á að yfirgefa borgina. Harðir bardagar hafa staðið um borgina síðustu daga.

Íbúar Debaltseve hafa verið fluttir á brott í rútum, en fréttaritari Reuters í nágrannabænum Horlivka, vestur af Debaltseve, segir að hann hafi séð um þrjátíu tómar rútur keyra í átt að Debaltseve undir eftirliti fulltrúa ÖSE, Úkraínuhers og aðskilnaðarsinna. Þá hafi einnig sést til fjölda rúta keyra í átt að borginni austan frá.

Aðskilnaðarsinnar hafa sótt hart að Debaltseve síðustu daga, en bærinn þykir hernaðarlega mikilvægur þar sem hann tengir aðrar stærri borgir saman á svæðinu.

Tilkynnt var um gerð vopnahlésins á sama tíma og Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseta kynna nýja friðaráætlun sem er ætlað að binda endi á margra mánaða átök í austurhluta Úkraínu. Þau munu funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag. Áætlað er að um fimm þúsund manns hafi látist í átökum síðustu mánaða.

Aðskilnaðarsinnar segja að vopnahléð hafi tekið gildi klukkan 9 að staðartíma og segja sjónarvottar að ekki hafi komið til átaka síðan. Úkraínsk stjórnvöld hafa hins vegar ekki staðfest samkomulagið.


Tengdar fréttir

Komið að ögurstundu í Úkraínu

Tími til að ná friðsamlegri lausn í Úkraínudeilunni er á þrotum, segir Frakklandsforseti. Hann og Þýskalandskanslari lögðu fram friðartillögur í dag en NATO eflir vígbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×