Erlent

Skotið á sjúkrahús í Donetsk

Atli Ísleifsson skrifar
Upphaflega bárust fréttir um að talsmaður Úkraínuhers hafi kennt aðskilnaðarsinnum um árásina, en aðskilnaðarsinnar segja stjórnarherinn bera ábyrgð á henni.
Upphaflega bárust fréttir um að talsmaður Úkraínuhers hafi kennt aðskilnaðarsinnum um árásina, en aðskilnaðarsinnar segja stjórnarherinn bera ábyrgð á henni. Vísir/AFP
Saksóknari í Úkraínu segir að fjórir til tíu manns hafi látist í árás á sjúkrahús í borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu. Upphaflega bárust fréttir um að talsmaður Úkraínuhers hafi kennt aðskilnaðarsinnum um árásina, en aðskilnaðarsinnar segja stjórnarherinn bera ábyrgð á henni.

„Samkvæmt fyrstu upplýsingum eru 4-10 manns látnir. Verið er að kanna fjölda særðra. Hryðjuverkamennirnir hafa enn á ný notað vopn gegn óbreyttum borgurum í Donetsk-héraði,“  sagði í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu.

Í frétt BBC segir að lík sáust hulin undir teppum fyrir utan sjúkrahúsið sem er að finna í hverfinu Kirovskiy. Harðir bardagar hafa geisað í og í kringum Donetsk síðustu vikur.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hefur hvatt til vopnahlés til að leyfa óbreyttum borgurum að yfirgefa borgina. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefur sömuleiðis hvatt til þriggja daga vopnahlés.

Að sögn mannréttindasamtakanna Amnesty eru sjö þúsund íbúar enn í bænum Debaltseve þar sem hörð átök hafa staðið síðustu vikuna. Vanalega eru íbúar bæjarins 25 þúsund talsins.

Aðskilnaðarsinnar hafa sótt hart að bænum síðustu daga, en bærinn er hernaðarlega mikilvæg borg þar sem hún tengir aðrar stærri borgir saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×