Erlent

Kafarar fundu tvö þúsund gullpeninga í Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Flestir peninganna voru frá elleftu öld og framleiddir í Egyptalandi.
Flestir peninganna voru frá elleftu öld og framleiddir í Egyptalandi. Mynd/Fornminjastofnun Ísrael
Kafarar fundu tvö þúsund gullpeninga á hafsbotni í Caesarea þjóðgarðinum í Ísrael, en um er að ræða einn stærsta gullfund í sögu landsins. Caesarea er forn borg sem stofnuð var af Rómverjum, en kafararnir rákust á peningana fyrir slysni.

Flestir peninganna voru slegnir í Egyptalandi á elleftu öld. Elstu peningarnir voru hins vegar slegnir á Sikiley á níundu öld.

Á vef fornminjastofnunnar Ísrael segir að kafararnir hafi í fyrstu talið að þeir hafi fundið leikpening. Þegar þeir áttuðu sig á því að peningurinn væri úr gulli fóru þeir aftur með fornleifarfræðingum og málmleitartæki og fundu restina af peningunum.

Þrátt fyrir að hafa legið á hafsbotni í nærri því þúsund ár eru peningarnir í góðu ásigkomulagi. Nokkrar kenningar eru uppi um hvernig peningarnir komust þangað, en allar ganga þær út á sökkvandi skip.

Hugsanlega voru peningarnir laun til hermanna, skattar eða jafnvel peningar í eigu verslunarmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×