Erlent

Komust að samkomulagi í Minsk

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands og Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Vladimir Putin, forseti Rússlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands og Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. Vísir/EPA
Vladimir Putin sagði á blaðamannafundi á tíunda tímanum í morgun að deiluaðilar í Úkraínu hafi samið um vopnahlé, sem hefst á miðnætti næstkomandi Sunnudag. Putin, Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Francois Hollande, forseti Frakklands funduðu í sautján klukkustundir í Minsk í Hvíta-Rússlandi.

„Okkur hefur tekist að semja um meginatriðin,“ er haft eftir Putin á vef BBC. Francois Hollande sagði þó að ekki væri búið að semja um öll deiluatriðin. Þá sagði Putin að yfirvöld í Kænugarði vildu enn ekki semja beint við aðskilnaðarsinna.

Búið er að semja um að þungavopn, eins og stórskotalið verði flutt frá víglínunni og að stofnað verði vopnlaust svæði á milli stríðandi fylkinga. Þá sagði Putin að stjórnarskrá Úkraínu yrði breytt með tilliti til réttinda rússneskumælandi íbúa Austur-Úkraínu.

Samkvæmt AP fréttaveitunni segja þó bæði stjórnarherinn og aðskilnaðarsinnar í Austur-Úkraínu að barist hafi verið á svæðinu í morgun.

Skömmu áður en þessi niðurstaða var tilkynnt höfðu fregnir borist af því að viðræðurnar gengu ekki vel. Poroshenko hafði sagt fjölmiðlum að skilmálar Rússlands væru óásættanlegir. 

Hollande, Merkel og Poroshenko munu nú biðja Evrópusambandið um að styðja samkomulagið.

Á vef Sky News kemur fram að bæði stjórnvöld í Kænugarði og aðskilnaðarsinnar séu óánægðir með samkomulagið.

Blaðamannafundur Putin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×