Ytri aðstæður til að afnema gjaldeyrishöftin hafa aldrei verið betri en núna. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands á fundi stjórnarandstöðunnar um afnám gjaldeyrishafta í Iðnó í dag. Þótti það tíðindum sæta að hagfræðingarnir þrír sem voru frummælendur á fundinum voru allir sammála um þetta atriði, en auk Ásgeirs voru Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabankanum og Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá ASÍ, með erindi.
Ásgeir sagði í sínu erindi að Seðlabankanum hefði tekist að ná efnahagslegum stöðugleika og verðbólgumarkmiðum sínum og hagvöxtur væri kominn á strik. Því væru aðstæður til afnáms hafta sérstaklega góðar nú. Árangur í haftaafnámi ylti þó fyrst og fremst á trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi.
Ólafur Darri tók undir þetta, trú á íslenskt efnahagslíf skipti sköpum. Nauðsynlegt væri að ganga þannig frá samningum um slit föllnu bankanna að þeir röskuðu ekki fjármálastöðugleika og ekki væri hægt að líta á erlendar eignir hér sem sjálfstæðan tekjustofn.
Sigríður sagði að útgönguskattur á eignir erlendra kröfuhafa væri í eðli sínu ákveðið form hafta. Við afnám haftanna væri mikilvægt að skerpa enn frekar á sjálfstæði Seðlabankans. Ef horft væri framhjá umræddum eignum erlendra kröfuhafa væri fjárfesting erlendra aðila á íslenskum markaði á eðlilegu róli.
Tíminn til að afnema höftin er núna
Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
