Erlent

Þungavopnin flutt frá víglínunni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Stjórnvöld í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins hafa samþykkt að flytja þungavopn sín frá víglínunni í samræmi við vopnahlésskilmála.

Það verður gert innan tveggja vikna og gæti brottflutningur vopnanna hafist síðar í dag. Ráðgert hafði þó verið að vopnin yrðu flutt fyrr í burt, eða fyrir um viku síðan og átti að ljúka 3.mars. Vopnahléið hefur þó ekki verið virt til þessa.

Olexander Rozmaznin, hershöfðingi í úkraínska hernum, staðfesti á blaðamannafundi í dag að búið væri að undirrita samning um brottflutning þungavopna. Samningarnir hefðu verið undirritaðir í gærkvöldi og það hafa aðskilnaðarsinnar einnig staðfest.

Þá greina fjölmiðlar ytra frá því að fangaskipti hafi farið fram í nótt og talið er að það sé fyrsta skrefið í átt að friði og til marks um að vopnahlé verði virt. Fangaskiptin eru einnig í samræmi við vopnahléið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst stuðningi við. 139 úkraínskum hermönnum var sleppt úr haldi aðskilnaðarsinna og 52 liðsmönnum aðskilnaðarsinnum látnir lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×