Erlent

Sænska konan ekki úrskurðuð í gæsluvarðhald

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla réðst inn á heimili konunnar í Bromölla á Skáni aðfaranótt fimmtudagsins.
Lögregla réðst inn á heimili konunnar í Bromölla á Skáni aðfaranótt fimmtudagsins. Vísir/AFP
Dómstóll í Kristianstad á Skáni hefur úrskurðað að konunni sem sökuð er um að hafa haldið þremur dætrum sínum læstum inni í íbúð um margra ára skeið verði sleppt.

Lögreglumenn leiddu konuna út úr réttarsalnum eftir að dómari tilkynnti um úrskurðinn eftir að hafa legið yfir gögnum í tvær klukkustundir.

„Dæturnar hafa verið sviptar frelsinu gegn vilja sínum, en spurningin er hvort það hafi verið refsivert. Hún er ekki búin að læsa dæturnar inni. Þetta hefur verið andleg þvingun,“ sagði saksóknarinn Pär Andersson í samtali við SVT.

Í frétt SVT segir að atburðarásin hafi verið nokkurn veginn á þá leið sem saksóknarinn lýsti, en dómurinn taldi það ekki vera næga ástæðu til að dæma konuna í gæsluvarðhald. Saksóknari segist sannfærður um að konan myndi hafa áhrif á sönnunargögn yrði henni sleppt.

Lögmaður konunnar, Thomas Ljungdahl, segir niðurstöðu dómsins ekki hafa komið á óvart. „Þetta er fjölskylda sem lifir á óvenjulegan máta en engin brot hafa verið framin.“

Dómarinn Ulf Ahlström segir konuna enn liggja undir grun vegna þeirra ásakana sem fram hafa komið.

Réttað var fyrir luktum dyrum og að sögn sat konan róleg í grænni treyju ásamt lögmanni sínum. Dæturnar voru ekki viðstaddar, en mikill fjöldi fjölmiðlamanna safnaðist saman fyrir utan dómssalinn.

Konan var handtekin aðfaranótt fimmtudagsins, eftir að lögregla réðst inn á heimili hennar í Bromölla á Skáni. Hún á að hafa búið á nokkrum stöðum í Svíþjóð þar sem hún kom í veg fyrir að börnin yfirgæfu heimilið. Konan var þó ekki skráð til heimilis í íbúðinni í Bromölla – ekki frekar en dætur hennar þrjár sem eru nú 23, 24 og 32 ára gamlar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×