Erlent

Árásarmennirnir í Túnis nafngreindir

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir Túnisa söfnuðust í gærkvöldi saman fyrir utan Bardo-safnið til að kveikja á kertum og syrgja hina látnu.
Þúsundir Túnisa söfnuðust í gærkvöldi saman fyrir utan Bardo-safnið til að kveikja á kertum og syrgja hina látnu. Vísir/AFP
Túníska innanríkisráðuneytið nafngreindi í morgun mennina sem drápu nítján manns og særðu fjörutíu í árás sinni á Bardo-safnið í miðborg Túnisborgar í gær.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að árásarmennirnir hafi verið Túnisarnir Yassine Abidi og Hatem Khachnaoui. Þeir létust báðir í áhlaupi lögreglu.

Í frétt BBC kemur fram að ekki hafi borist frekari upplýsingar um árásarmennina en að sögn kunna tveir eða þrír sem aðstoðuðu þá Abidi og Khachnaoui enn að ganga lausir.

Beji Caid Essebsi, forseti Túnis, segir landið nú eiga í stríði gegn hryðjuverkum.

Sautján erlendir ferðamenn, lögreglumaður og rútubílstjóri létust í árásinni. Enn sem komið er hefur enginn lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Árásarmennirnir skutu á hóp ferðamanna þegar þeir fóru úr rútu sinni fyrir utan safnið. Fjöldi fólks flúði þá inn í safnið þar sem þeir Abidi og Khachnaoui héldu tugi manna í gíslingu.

Ferðamennirnir komu frá Japan, Ítalíu, Kólumbíu, Ástralíu, Frakklandi, Póllandi og Spáni. Árásin er mikið áfall fyrir landið þar sem ferðamannaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugreinin í landinu.

Þúsundir Túnisa söfnuðust í gærkvöldi saman fyrir utan safnið til að kveikja á kertum og syrgja hina látnu.

„Árásinni var ekki einungis beint að ferðamönnum og Túnisum, en einnig því frjálsa og umburðarlynda samfélagi sem Túnisar hafa barist við að byggja upp síðustu fjögur árin,“ segir Eric Goldstein, talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch.

Túnis er það land sem hefur gengið í gegnum mestu lýðræðisumbætur meðal þeirra landa sem gengu í gegnum „arabíska vorið“ fyrir um fjórum árum. Nokkrar frjálsar kosningar hafa átt sér stað í landinu síðustu árin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×