Handbolti

Geir fékk hjálp úr óvæntri átt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiríkur Stefán Ásgeirsson.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson. Vísir/Getty
Magdeburg, lið Geirs Sveinssonar, vann í kvöld öruggan sigur á Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni á heimavelli, 36-24.

Hamburg batt enda á ellefu leikja sigurgöngu Magdeburg í deildinni í síðustu umferð og síðarnefnda liðið tapaði þá þriðja sæti deildarinnar til Flensburg, sem lærisveinar Geirs höfðu unnið skömmu áður.

Flensburg tapaði í kvöld óvænt dýrmætu stigi í baráttunni er liðið gerði jafntefli við Erlangen, sem er í næstneðsta sæti deildarinnar, 22-22. Flensburg og Magdeburg eru því jöfn að stigum í 3.-4. sæti deildarinnar með 39 stig hvort.

Rhein-Neckar Löwen komst á toppinn með sigri á Minden á heimavelli, 28-23, en Kiel getur endurheimt toppsætið með sigri á Lübbecke, sem nú stendur yfir.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen í kvöld og Stefán Rafn Sigurmannsson eitt.

Füchse Berlin er í sjöunda sætinu eftir sigur á Wetzlar í kvöld, 32-24. Dagur Sigurðsson er þjálfari Berlínarrefanna sem hafa verið á fínu skriðu að undanförnu, ef frá er talið fjórtán marka tap gegn Kiel í síðustu umferð.

Í B-deildinni hafði Íslendingaliðið Emsdetten betur gegn Bad Schwartau, 32-25. Ernir Hrafn Arnarson skoraði fjögur mörk fyrir Emsdetten, Anton Rúnarsson þrjú, Oddur Gretarsson tvö en Ólafur Bjarki Ragnarsson ekkert.

Aue, lið Rúnars Sigtryggssonar, vann Eintracht Baunatal, 34-26. Hörður Sigþórsson skoraði þrjú mörk í leiknum en fékk að líta rautt spjald fyrir þrjár brottvísanir í leiknum. Bjarki Már Gunnarsson skoraði tvö mörk en Árni Sigtryggsson ekkert. Sveinbjörn Pétursson markvörður sat á bekknum að þessu sinni.

Aue er í níunda sæti deildarinnar með 30 stig en Emsdetten í ellefta sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×