Menning

Sæmundur fróði og baráttan við Kölska

Heimir Már Pétursson skrifar
Ný íslensk ópera, Sæmundur Fróði, eftir Þórunni Guðmundsdóttur verður frumsýnd í Iðnó klukkan átta í kvöld. Þetta er fimmta ópera Þórunnar sem einnig leikstýrir verkinu.

Fréttastofan leit inn í iðnó síðdegis þegar söngvarar og aðstoðarfólk var að hafa sig til fyrir frumsýninguna en sýningarnar verða samtals fjórar. Þessi fjölmenna sýning er samvinnuverkefni leikfélagsins Hugleiks og Tónlistarskólans í Reykjavík en tíu manna hljómsveit og 24 söngvarar taka þátt í sýningunni.

Sæmundur fróði sem fæddist 1056 og lést 1133 var með lærðustu mönnum sinnar tíðar og nam við Svartaskóla í París. Þaðan varð til goðsögn um hann og viðureign hans við Kölska sem kemur að sjálfsögðu við sögu í í óperunni. Sæmundur var goðorðsmaður og prestur í Odda en þótt rit hans séu öll glötuð er vitað að hann skrifaði töluvert um sögulegt efni og þá líklega á latínu.

„Togstreitan milli góðs og ills er rakinn efniviður í óperu. Kímnin í sögunni kallast á við hættuna á eilífri glötun og þegar það bætist við að ólíkindatólið Kölski getur brugðið sér í allra kvikinda líki þá er höfundi skemmt,” segir í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar. En auk frumsýningarinnar í kvöld verða sýningar dagana 16., 17. og 18. mars.

Einar Þór Guðmundsson, sem syngur hlutverk Sæmundar, flutti fyrir okkur brot úr einni aríu eins og sjá má í innslaginu hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.