Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson eru sem kunnugt er í framboði ásamt Einari Steingrímssyni. Sá síðastnefndi átti reyndar ekki heimangengt á kappræðurnar sökum þess að hann er búsettur í Skotlandi. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og vinkona Einars, hljóp í skarðið fyrir Einar og flutti ræðu hans.

„Það er rétt að taka fram í upphafi að ástæða þess að ég er ekki hér í dag er að Stúdentaráð hætti við að hafa þennan fund þegar ég var síðast á landinu -- til að hliðra til fyrir öðrum frambjóðanda,“ kom fram í ræðu Steinunnar Ólínu fyrir hönd Einars í dag.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna rektorskjörs stendur nú sem hæst en hún fer fram á upplýsingaskrifstofu í anddyri Aðalbyggingar og stendur fram á föstudag. Almenn atkvæðagreiðsla í HÍ fer svo fram þann 13. apríl.

