Erlent

Vill fjarlægja Kúbu af lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetarnir Raul Castro og Barack Obama.
Forsetarnir Raul Castro og Barack Obama. Vísir/AFP
Búist er við að bandaríska utanríkisráðuneytið leggi til að Kúba verði fjarlægt af lista yfir þau ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi. CNN hefur þetta eftir ónafngreindum embættismanni innan bandarísku stjórnsýslunnar. Mögulega verður tilkynnt um málið í vikunni.

Síðustu mánuði hefur verið unnið að auknum og bættum samskiptum milli Bandaríkjanna og Kúbu, eftir að samkomulag náðist milli ríkjanna í desember síðastliðinn. Leynilegar samningaviðræður höfðu þá staðið í marga mánuði.

Embættismaðurinn sagðist „búast við“ að Kúba verði fjarlægt af listanum, en lagði þó áherslu á að Bandaríkjastjórn eigi enn eftir að taka formlega ákvörðun um slíkt.

Samþykki Barack Obama Bandaríkjaforseti tillögu utanríkisráðuneytisins hefur Bandaríkjaþing 45 daga til að staðfesta ákvörðunina til að hún öðlist gildi.

Kúba, Íran, Sýrland og Súdan eru á lista Bandaríkjastjórnar yfir þau ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi.


Tengdar fréttir

Airbnb opnar fyrir heimagistingar á Kúbu

Rúmlega þúsund eignir á Kúbu eru þegar á lista Airbnb, en enn sem komið er er einungis mögulegt að bóka slíkar eignir í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×