Innlent

Áhrifin á Landsspítalann síst minni en af læknaverkfalli

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Starfsemi Landspítalans mun lamast að hluta til þegar verkfall hefst á miðnætti. Þá mun starfsemin hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fara úr skorðum þegar lögfræðingar leggja niður störf.

Yfirvofandi verkfall kemur illa við starfsemi Landsspítalans, enda er enn verið að vinna upp biðlista eftir læknaverkfallið, auk þess að inflúensufaraldurinn olli jafnframt álagi á starfsemina.

Geislafræðingar, náttúrufræðingar og ljósmæður og lífeindafræðingar á Landspítala, alls um fimm hundruð manns fara í verkfall.

Meðal annars verður ekki hægt að gera blóðrannsóknir og myndgreiningar nema í bráðatilfellum en það hefur keðjuverkandi áhrif á alla starfsemina. Mörgum skipulögðum skurðaðgerðum og sérhæfðum meðferðum verður frestað og verulega hægist á allri reglulegri starfsemi. Reynt verður að fremsta megni að tryggja bráðastarfsemi og að verkfallsaðgerðir ógni ekki öryggi sjúklinga.

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs spítalans, segir að þetta sé mjög áhrifaríkt verkfall, áhrifin verði síst minni en af verkfalli lækna. Það muni miklu þegar svona stór hópur gangi úr húsi.

Katrín Sigurðardóttir formaður Félags geislafræðinga, segir að félagsmenn muni aðeins sinna nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu. Það sé heldur allra hagur að vinna í því að leysa málin, ekki að draga verkfallið á langinn.

Örtröð hjá sýslumanni fyrir páska

Yfirvofandi verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættinu olli örtröð fyrir páskahelgina.

Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM, segir að það hafi verið mikið uppþot og fólk hafi verið mjög stressað að ná að þinglýsa pappírum fyrir verkfall.

Hún segist ennfremur telja að fólk vanmeti áhrif þessa verkfalls því það muni hafa keðjuverkandi áhrif. Það stöðvist öll fasteignaviðskipti, en ekki verði hægt að þinglýsa neinum pappírum. Þá muni fólk hvorki gifta sig né skilja hjá sýslumanni meðan verkfallið stendur yfir. Það sé enginn á undanþágulista.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×