Fótbolti

Balotelli þarf brauð og vatn til að skora en ekki Ferrari

Tómas Þ'or Þórðarson skrifar
Mario Balotelli hefur ekkert getað hjá Liverpool.
Mario Balotelli hefur ekkert getað hjá Liverpool. vísir/getty
Massimo Ferrero, hinn bráðskemmtilegi forseti Sampdoria í ítölsku A-deildinn í fótbolta, segir Mario Balotelli þurfa temja sér lágstemmdari lífstíls ætli hann að byrja að skora aftur.

Balotelli hefur átt erfiða daga á Anfield og aðeins skorað fjögur mörk í 25 leikjum fyrir Liverpool síðan hann gekk í raðir liðsins frá AC Milan síðasta sumar.

Hann hefur fengið ævintýralegan skammt af gagnrýni; bæði fyrir að skora ekkert og svo fyrir framlag sitt á vellinum sem er ekki mikið.

„Ég myndi semja við hann,“ sagði Ferrero í viðtali við Gazzetta TV, þegar Balotelli barst í tal.

„Ef hann kæmi til Sampdoria yrði hann aftur góður. Hér myndi enginn rífast í honum ef hann myndi ekki skora. Hann hefði bara hægt um sig og væri ánægður.“

„Að mínu mati er hann bara ekki lengur hungraður enda fær hann fjórar milljónir evra á ári,“ sagði Ferrero, en hann vill að Balotelli byrji að keyra um á Bianchina-bíl, smábíl sem vinsæll var á sjöunda áratugnum.

„Við myndum bara gefa honum brauð, vatn og Bianchina frekar en Ferrari. Þá er ég viss um að hann fari að skora aftur,“ sagði Massimo Ferrero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×