Innlent

Íslenskir hommar þeir hamingjusömustu í heiminum

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Gay Pride göngunni í Reykjavík í fyrra.
Frá Gay Pride göngunni í Reykjavík í fyrra. Vísir/Valli
Hvergi í heiminum eru samkynhneigðir karlmenn hamingjusamari en á Íslandi, samkvæmt könnun vefsíðunnar Planet Romeo. Könnunin byggir á svörum 115 þúsund samkynhneigðra karlmanna frá 127 löndum og er gerð í tilefni Alþjóðadagsins gegn hómófóbíu (IDAHOT), sem haldinn var í gær.

Næst á eftir Íslandi fylgja Noregur, Danmörk og Svíþjóð og í umsögn sinni um niðurstöðurnar kalla aðstandendur Planet Romeo Skandinavíu „himnaríki fyrir samkynhneigða.“ Afríkuríkin Úganda, Súdan og Eþíópía skipa neðstu sæti listans.

Könnunin tekur helst mið af þremur þáttum. Hvað samkynhneigðum mönnum finnst um viðhorf samfélagsins til samkynhneigðar, hvernig þeim finnst aðrir koma fram við sig og hversu sáttir þeir eru við sjálfa sig. 123 Íslendingar tóku þátt í könnuninni.

Í umsögninni segir að fjöldi þeirra landa þar sem aðstæður samkynhneigðra fari versnandi, til dæmis Rússland, Tyrkland og Ungverjaland, sé mikið áhyggjuefni. Líta megi á könnunina ekki einungis sem úttekt á stöðu samkynhneigðra um heim allan, heldur einnig á stöðu mannréttindamála almennt. Stjórnvöld sem ali á hatri og fordómum gegn minnihlutahópum ráðist gegn grunngildum okkar allra. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×