Enski boltinn

5.500 miðar farnir áður en almenn miðasala hefst

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aðeins 4.000 miðar eru til sölu í dag.
Aðeins 4.000 miðar eru til sölu í dag. vísir/andri marinó
„Því miður eru bara 4.000 miðar eftir,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Vísi, en miðasala á leik Íslands og Tékklands sem fram fer 12. júní hefst á hádegi í dag.

Fótboltaáhugamenn á Twitter fóru að velta fyrir sér af hverju aðeins 4.000 miðar væru eftir miðað við frétt sem birtist á vef KSÍ í ágúst í fyrra.

Þar kom fram að 500 mótsmiðar, miðar sem gilda á alla heimaleiki Íslands, voru seldir auk þess að 3.000 miðar hafi farið til samstarfs- og kostunaraðila.

Miðað við þá frétt og þá 4.000 miða sem í boði eru í dag vantar um 2.300 miða upp á í almenna miðasölu þar sem Laugardalsvöllur tekur ríflega 9.700 manns í sæti.

„Það seldust 1.000 mótsmiðar,“ segir Klara og bætir við að tékkneska sambandið hafi fengið 1.000.

Aðrir 2.500 miðar fóru til samstarfs- og kostunaraðila og þá er KSÍ skylt að halda frá 1.000 miðum samkvæmt reglugerð UEFA fyrir starfsmenn sambandsins, dómara, fjölmiðla og fleiri.

Alls eru því 5.500 miðar farnir áður en almenn miðasala hefst klukkan 12.00 í dag, en þar verða seldir 4.000 miðar.

„Það eru svo einhverjir miðar sem falla niður t.d. í öryggissæti við hliðina á Tékkunum og fleira í þeim dúr,“ segir Klara.

Miðasala hefst klukkan 12.00 á miði.is og hefur framkvæmdastjórinn engar áhyggjur af kerfinu, en það hrundi eins og frægt er þegar fólk reyndi að kaupa miða á leikinn gegn Króatíu í nóvember 2013.

„Ég hef rosalega mikla trú á miði.is. Við höfum unnið mjög vel saman fyrir þennan leik og ég hef fulla trú á að kerfið muni halda,“ segir Klara Bjartmarz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×