Viðskipti innlent

Wow air flýgur beint til Montreal í byrjun næsta árs

ingvar haraldsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air. vísir/vilhelm
Wow air hyggst hefja áætlunarflug beint til Montreal í byrjun næsta árs. Flogið verður fjórum til fimm sinnum í viku. Á árinu 2016 hyggst Wow fjölga áfangastöðum í Norður Ameríku talsvert en Mbl greindi fyrst frá málinu.

Flugfélagið hóf áætlunarflug til Norður-Ameríku í lok mars. Fyrsti áfangastaðurinn var Boston en fljúga á þangað sex sinnum í viku allt árið. Þá hófst heilsársflug til Washington í byrjun maí en flogið verður fimm sinnum.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow, segir Ameríkuflugið hafa gengið afar vel hingað til enda stefni í að sætanýting verði 90 prósent í maí. Svanhvít segir farþegana skiptast milli Íslendinga og tengifarþega sem séu að ferðast á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Óttast ekki of hraðan vöxt

Wow er í sóknarhug en Skúli Mogenson, forstjóri og eigandi Wow, segir í samtali við Mbl að félagið hyggist vaxa um 50 prósent á næsta ári og fjölga starfsmönnum um 100. Þá verði starfsmenn fyrirtækisins um 350. Þá á einnig að fjölga flugvélum úr sex í níu.

Svanhvít segir vöxtinn alls ekki vera of hraðan. „Þetta er bara það sem við erum búin að vera að gera síðustu árin. Við erum þriggja ára núna á sunnudaginn. Við erum með sex flugvélar núna en byrjuðum bara með tvær. Þetta hefur verið þróunin frá því við byrjuðum,“ segir hún.

Svanhvít segir að Wow muni fljúga til 20 áfangastaða í sumar og þeir hafi aldrei verið fleiri. Róm, Billund og Tenerife hafi bæst við sem nýir áfangastaðir Wow á þessu ári. Þá mun flugfélagið fljúga allt árið til Dublin og Amsterdam.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×