Handbolti

Guðjón Valur: Það hvílir engin bölvun á mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er mættur til að vinna Meistaradeildina loksins.
Guðjón Valur Sigurðsson er mættur til að vinna Meistaradeildina loksins. vísir/epa
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta og leikmaður Barcelona, tekur þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fimmta árið í röð um aðra helgi.

Barcelona mætir þá pólska liðinu Kielce í undanúrslitum í Köln, en í hinum undanúrslitaleiknum eigast við Kiel og ungverska liðið Veszprém.

Guðjón Valur komst fyrst í undanúrslit með Rhein-Neckar Löwen árið 2011, AG Kaupmannahöfn 2012 og svo undanfarin tvö ár með Kiel.

Þrátt fyrir að hafa spilað fjórum sinnum í undanúrslitum og úrslitaleikinn einu sinni á síðustu leiktíð hefur Guðjón Valur aldrei orðið Evrópumeistari.

„Það hvílir engin bölvun á mér!“ segir Guðjón Valur í viðtali við heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins.

„Ég trúi því alltaf að ég muni vinna þennan titil einu sinni á ferlinum. Tapið í úrslitaleiknum í fyrra gegn Flensburg var mjög sárt. Við spiluðum vel, en sigur Flensburg var sanngjarnan sigur. Í ár mæti ég til Kölnar til að vinna þetta loksins,“ segir Guðjón Valur.

Guðjón Valur súr eftir tapið í fyrra ásamt Filip Jicha og Patrick Wiencek.vísir/getty
Guðjón Valur gekk í raðir Barcelona fyrir tímabilið og hefur spilað stórvel, bæði í deildinni heima fyrir sem og í Meistaradeildinni.

„Þessi vistaskipti voru frábær fyrir mig og mína fjölskyldu eftir tólf ár í Þýskalandi og eitt ár í Danmörku. Ég og fjölskyldan þurftum að byrja á núlli en það höfum við gert áður. Nú höfum við komið okkur fyrir og krakkarnir njóta lífsins í Barcelona,“ segir Guðjón Valur.

Það er einnig öðruvísi að spila handbolta með liði eins og Barcelona sem getur tekið því rólega í deildinni á Spáni en keyrt allt í gang í Meistaradeildinni.

„Þetta er auðvitað gríðarlegur munur þar sem það er ekkert lið sem er nálægt okkur í gæðum. En við verðum að vera 100 prósent klárir í Meistaradeildinni og æfa mjög vel,“ segir Guðjón Valur.

„Þó við séum með góða forystu í leik höldum við bensíngjöfinni niðri í 60 mínútur. Við verðum að vera með þannig viðhorf til að ahlda takti. Markmiðið hjá öllum er það sama: Að vinna Meistaradeildina,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×