Fótbolti

Eiður Smári undirbýr sig fyrir Tékkaleikinn í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen ætlar að mæta klár í slaginn þegar Ísland mætir Tékklandi á Laugardalsvellinum 12. júní næstkomandi í fyrsta heimaleik ársins í undankeppni EM 2016.

Eiður Smári segir frá því á fésbókarsíðu sinni í dag að hann ætli að æfa með félagi í Bandaríkjunum til að halda sér í formi fyrir landsleikinn í júní.

Tímabilið er búið hjá Eiði Smára og félögum í Bolton en síðasti leikur liðsins var á móti Birmingham 2. maí síðastliðinn. Eiður Smári spilaði í 69 mínútur í þeim leik.

Það verða því liðnir yfir 40 dagar frá síðasta leik hans þegar kemur að þessum mikilvæga leik við Tékka.

Eiður Smári átti frábæra endurkomu inn í íslenska landsliðið í mars þegar hann skoraði fyrsta mark íslenska liðsins í 3-0 sigri á Kasakstan.

Eiður Smári skoraði 6 mörk í 24 deildar- og bikarleikjum með Bolton Wanderers á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×