Erlent

Breska þingið styður þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

Bjarki Ármannsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Breta, lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2013.
David Cameron, forsætisráðherra Breta, lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2013. Vísir/AFP
Mikill meirihluti breskra þingmanna samþykkti í kvöld frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu. 544 greiddu atkvæði með frumvarpinu en aðeins 53 á móti.

Þingmenn Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins styðja frumvarpið en það gerir Skoski þjóðarflokkurinn ekki. Atkvæðagreiðslan fór fram í kjölfar annarar umræðu um frumvarpið en það á eftir að fara í gegnum langt umræðu- og breytingaferli til viðbótar áður en það getur verið endanlega samþykkt.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar að heil kynslóð Breta hefði ekki fengið að tjá sig um stöðu Bretlands gagnvart Evrópu og að almenningur ætti nú að fá að ráða. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór síðast fram um málið í Bretlandi árið 1975.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, lofaði því árið 2013 að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi fara fram um áframhaldandi stöðu landsins í Evrópusambandinu. Hann segist vilja halda Bretlandi í Evrópusambandinu ef hann nær í gegn ákveðnum breytingum á aðildarsamkomulagi landsins.

Cameron hefur lýst því yfir að hann muni semja um betra samkomulag við sambandið fyrir Breta áður en þjóðin greiðir atkvæði, í síðasta lagi undir lok ársins 2017.


Tengdar fréttir

Kosningar um aðildina að ESB

Bretadrottning flutti í gær stefnuræðu Camerons. Meðal helstu mála má nefna þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, aukin völd til Skotlands, Wales og Norður-Írlands og auknar heimildir leyniþjónustunnar til að fylgjast með farsímanotkun fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×