Handbolti

Guðmundur Hólmar á leið til Frakklands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur Hólmar í leik gegn Fram.
Guðmundur Hólmar í leik gegn Fram. vísir/ernir
Það er svo gott sem frágengið að Guðmundur Hólmar Helgason yfirgefi herbúðir Valsara að ári liðnu.

Þá mun hann væntanlega ganga í raðir franska úrvalsdeildarliðsins Cesson Rennes þar sem Ragnar Óskarsson, fyrrum aðstoðarþjálfari Vals, er aðstoðarþjálfari.

„Öll formsatriði eru klár en ég á eftir að skrifa undir. Ég fer svo út í júlí og geng væntanlega frá þessu," segir Guðmundur Hólmar.

„Það hefur verið stefnan í langan tíma að komast í atvinnumennsku þannig að þetta er mjög gaman. Ég mun að öllu óbreyttu skrifa undir tveggja ára samning."

Cesson Rennes sigldi lygnan sjó í frönsku deildinni á nýliðinni leiktíð. Liðið varð í sjöunda sæti af fjórtán liðum.

„Ég hef trú á því að þetta sé fínn staður til þess að hefja minn atvinnumannaferil. Ég þekki Ragga vel sem er toppmaður. Þetta á eftir að vera gaman. Þeir eru að hugsa um mig í svipuðu hlutverki hjá Val. Stórt hlutverk í vörn og sókn þar sem ég verð bæði miðjumaður og skytta. Ég er samt aðallega hugsaður sem miðjumaður."

Guðmundur Hólmar mun því spila með Val næstu leiktíð en hvernig tilfinning er að vera kominn með samning en fara ekki fyrr en eftir ár?

„Það eru blendnar tilfinningar. Það er ákveðið öryggi að vera kominn með samning en samt skrítið að spila eftir að hafa samið við annað lið. Ég held ég þurfi klárlega á því að halda að spila eitt ár í viðbót heima. Þroska minn leik og halda áfram að bæta mig. Svo erum við nýbúin að eignast okkar annað barn og fínt að ná einu ári hér heima með því áður en við förum út."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×