Slitnað hefur upp úr viðræðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Fundur hófst klukkan ellefu í Karphúsinu í morgun en honum lauk fyrir um tíu mínútum.
Ólafur G. Skúlason, formaður félagsins, segir að enginn árangur hafi náðst á fundinum í dag og að tilfinning samninganefndar sé sú að ríkið hafi ekki sýnt vilja til þess að nálgast nægilega kröfur hjúkrunarfræðinga.
„Staðan er sú að það hefur ekki verið boðað til annars fundar og okkar mat er það að ríkið hafi ekki nálgast okkar kröfur nægilega mikið,“ segir Ólafur. „Við getum ekki samþykkt það og okkar félagsmenn munu aldrei samþykkja slíkan samning.“
Ólafur segir að möguleg lagasetning á verkfall hjúkrunarfræðinga hafi ekki verið rædd sérstaklega á fundinum. Hann óttist þó, miðað við ummæli ráðamanna í fjölmiðlum að undanförnu, að til þess komi fyrst ekki tókst að semja í dag.
„Það þarf náttúrulega eitthvað að breytast til að það verði kallað til fundar,“ segir hann.
