Handbolti

Þýskaland aftur bakdyramegin inn á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anja Althaus og félagar hennar í þýska landsliðinu verða með á HM í Danmörku.
Anja Althaus og félagar hennar í þýska landsliðinu verða með á HM í Danmörku. Vísir/Getty
Þýskaland og Serbía keppa á HM í handbolta sem fer fram í Danmörku í lok ársins þrátt fyrir að hafa fallið úr leik í undankeppni mótsins.

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, ákvað að halda eftir tveimur sætum og úthluta tveimur þjóðum svokallaðan „wildcard“-þátttökurétt.

Brasilía varð heimsmeistari þegar HM var haldið í Serbíu árið 2013 og vegna þess áttu sex Suður-Ameríkuþjóðir að fá þátttökurétt í lokakeppni HM 2015.

IHF-ráðið ákvað hins vegar að fækka Suður-Ameríkuþjóðum um tvær og halda eftir tveimur sætum. Serbía fékk þátttökurétt þar sem liðið náði öðru sæti á HM fyrir tveimur árum og Þýskaland fyrir sjöunda sætið á EM í fyrra.

Þýskaland tapaði fyrir Rússlandi í undankeppni HM 2015 og Serbía fyrir Rúmeníu.

Skemmst er að minnast þess að Þýskaland fékk óvænt þátttökurétt á HM karla í Katar fyrr á þessu ári eftir að áðurnefnt IHF-ráð ákvað að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu.

Dregið verður í riðla fyrir HM í Danmörku á morgun. Ísland er ekki á meðal þátttökuþjóða eftir tap fyrir Svartfjallalandi í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×