Fótbolti

Ísland í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í undankeppni HM 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir og stuðningsmennirnir fagna hér öðru markanna í kvöld.
Strákarnir og stuðningsmennirnir fagna hér öðru markanna í kvöld. Vísir/Ernir
Íslenska karlalandsliðið vann ekki bara Tékkland í kvöld því liðið fór langt með að tryggja sér sæti í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verið í undankeppni HM 2018.

 

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska landsliðsins, sagðist í viðtali á RÚV í kvöld að samkvæmt hans útreikningum þá ætti sigurinn á Tékkum í kvöld að fara langt með að tryggja íslenska liðinu sæti í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í næstu undankeppni.

„Það ætti að vera nánast öruggt að Ísland verði í öðrum styrkleikaflokki," sagði Heimir í viðtalinu.

Íslenska landsliðið steig því ekki bara stórt skref í átt að því að komast á Evrópumótið í Frakklandi á næsta ári með sigrinum í kvöld því nú verður liðið í mun betri stöðu þegar dregið verður í riðla í undankeppni HM í Rússlandi 2018.

Ísland var í 37. sæti á síðasta styrkleikalista FIFA en með því að vinna Tékka, sem eru í sextánda sæti nýjasta listans, þá ætti liðið að hækka sig á næsta lista sem verður væntanlega gefinn út í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×