Fótbolti

Fáum nú að sjá hversu virkilega góður Birkir Bjarnason er

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Birkir Bjarnason spilar nú með Svisslandsmeisturum Basel.
Birkir Bjarnason spilar nú með Svisslandsmeisturum Basel. vísir/getty
Kåre Ingebrigtsen, þjálfari Rosenborg sem mætir KR í Evrópudeildinni á Alvogen-vellinum í kvöld, var aðstoðarþjálfari Viking í Stavanger áður en hann tók við uppeldisfélagi sínu í fyrra.

Hjá Viking þjálfaði hann íslenska landsliðsmanninn Birki Bjarnason áður en hann fór til Standard Liege, þaðan til Pescara og nú síðast til Basel.

Sjá einnig:Þjálfari Rosenborg: Íslenskur fótbolti er á flugi

Norðmaðurinn hefur miklar mætur á Birki þó hann hafi ekki fullnýtt hæfileika sína þegar hann var á mála hjá Viking.

„Við sáum alltaf hversu hæfileikaríkur hann er. Það besta við hann samt var hversu þolinmóður hann var og hversu mikið hann lagði á sig,“ sagði Ingebrigtsen um Birki við Vísi.

„Hann hefur alltaf verið góður í fótbolta og haft mikla hæfileika, en hann nýtti þá ekki eins vel þegar ég þjálfaði hann. Birkir gerir það betur í dag enda reyndari leikmaður.“

Birkir spilaði frábærlega með Pescara í ítölsku B-deildinni á síðustu leiktíð og var keyptur fyrir um þrjár milljónir evra til svissnesku meistaranna í Basel.

„Birkir er frábær strákur og frábær leikmaður. Hann fær nú í fyrsta sinn að spila í Meistaradeildinni og þá getum við séð hversu virkilega góður hann er. Hann mun standa sig mjög vel held ég í Meistaradeildinni. Ég óska honum bara alls hins besta,“ sagði Ingebrigtsen um sinn gamla lærisvein.

Aðspurður hvort hann langaði ekki í framtíðinni að endurnýja kynnin af ljóshærða miðjumanninum hló Kåre Ingebrigtsen og sagði:

„Hann verður hjá Basel í svona tvö ár og stendur sig í Meistaradeildinni. Svo fæ ég hann til Rosenborg.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×