Fótbolti

Rúnar: Rosenborg vinnur KR í átta skipti af hverjum tíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Vísir/EPA
Rúnar Kristinsson, íslenski þjálfarinn hjá  norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström, þekkir vel til liða KR og Rosenborg sem mætast á forkeppni Evrópudeildarinnar á KR-vellinum í kvöld.

Dagbladet í Noregi ræddi við Rúnar um leikinn en Rúnar vann fimm titla á þremur og hálfu ári sem þjálfari Vesturbæjarliðsins áður en hann gerðist þjálfari Lilleström fyrir núverandi tímabil.

„KR er annað af tveimur bestu liðum íslensku deildarinnar og þar vill liðið spila sóknarbolta og vera með boltann. Í leikjum á móti liðum frá öðrum löndum liggur liðið hinsvegar oftast aftar á vellinum," sagði Rúnar.

„Rosenborg myndi vinna KR í átta skipti af hverjum tíu. Þetta er samt öðruvísi í Evrópudeildinni og íslensku liðin geta reynst hættuleg," sagði Rúnar.

„KR getur spilað vel í heimaleiknum. Flestir leikmanna liðsins hafa reynslu af Evrópukeppninni og kunna því að stilla sig fyrir leik á móti erlendu liði," sagði Rúnar.

Rosenborg vann 3-0 sigur á Rúnari og lærisveinum hans í Lilleström þegar liðin mættust á heimavelli Rosenborg í Þrándheimi í maí.

Alexander Söderlund, fyrrum leikmaður FH, skoraði tvö markanna en Rosenborg gerði út um leikinn með því að komast í 3-0 eftir aðeins 34 mínútna leik.  

Leikur KR og Rosenborg hefst klukkan 19.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×