Fótbolti

Lars Lagerbäck í hópi 50 bestu þjálfara heims samkvæmt úttekt FourFourTwo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars hefur náð frábærum árangri síðan hann tók við íslenska landsliðinu.
Lars hefur náð frábærum árangri síðan hann tók við íslenska landsliðinu. vísir/anton
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, er í hópi 50 bestu þjálfara heims samkvæmt úttekt á vefsíðu tímaritsins FourFourTwo.

Lars er í 41. sæti á lista FourFourTwo en í umsögn um Svíann segir m.a.: „Ísland hafði aldrei verið nálægt því að gera sig gildandi í alþjóðafótbolta og Svíinn reyndi virtist vera að hverfa úr sviðsljósinu þegar hann tók við liðinu.

„En Lagerbäck sá spennandi hóp með ungum og hæfileikaríkum leikmönnum og leiddi þá í umspil um sæti á HM 2014 - þar sem Ísland tapaði fyrir Króatíu.“

Lars er einnig hrósað fyrir að hafa tekist að koma Íslandi aftur í baráttuna um sæti á stórmóti eftir vonbrigðin gegn Króatíu.

„Lagerbäck hefur búið til þétt og tæknilega gott lið sem er að mörgu leyti eins og félagslið. Ísland er með fimm stiga forystu á Holland í A-riðli undankeppninnar og sigur á Hollendingum í Amsterdam í september fer langt með að tryggja liðinu sæti í lokakeppninni,“ segir ennfremur í umsögninni.

Einn af mótherjum Lars í undankeppninni, Pavel Vrba þjálfari Tékklands, er í 48. sæti listans en það á enn eftir að birta 10 efstu þjálfarana.

Herve Renard, nýráðinn þjálfari Lille í Frakklandi sem gerði Fílabeinsströndina að Afríkumeisturum í byrjun árs, er í 42. sæti, einu fyrir neðan Lars. Í sætinu fyrir ofan Svíann er Markus Weinzierl sem hefur gert frábæra hluti með Augsburg í Þýskalandi.

Úttekt FourFourTwo má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×