Erlent

Bókhaldarinn í Auschwitz dæmdur í fjögurra ára fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Margir efast um hvort Gröning verði látinn sitja af sér dóminn vegna hás aldurs.
Margir efast um hvort Gröning verði látinn sitja af sér dóminn vegna hás aldurs. Vísir/AFP
Dómstóll í þýsku borginni Lüneburg dæmdi í dag hinn 94 ára Oskar Gröning, fyrrum bókhaldara í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz, í fjögurra ára fangelsi.

Gröning er dæmdur fyrir aðild að morðunum á um 300 þúsund mönnum.

Gröning er líklegast einn sá síðasti sem leiddur verður fyrir rétt vegna aðildar sinnar að grimmdarverkunum í útrýmingarbúðum þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

Gröning baðst fyrirgefningar á aðild sinni á meðan á réttarhöldum stóð. „Í mínum huga er enginn vafi á því að ég ber siðferðislega ábyrgð.“ Hann sagðist hafa þekkt til þess á sínum tíma að fjöldi gyðinga hafi verið leiddir inn í gasklefa og teknir þar af lífi.

Gröning hafði það verkefni að reikna og skrá þá peninga sem fangarnir höfðu með sér þegar þeir komu fyrst til búðanna. Verkefni hans var einnig að koma í veg fyrir að nýir fangar kæmust að þeim fjöldamorðum sem þar voru stunduð.

Áætlað er að um milljón manns hafi látið lífið í útrýmingarbúðunum.

Andstætt við aðra þá sem störfuðu í Auschwitz hefur Gröning talað opinskátt um það sem átti sér stað í búðunum. Hefur hann ritað sjálfsævisögu, látið taka við sig viðtöl og tekið þátt í gerð fjölda heimildarmynda.

Í frétt BBC kemur fram að margir efist um hvort Gröning verði látinn sitja af sér dóminn vegna hás aldurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×