Handbolti

Karabatic sektaður en slapp við fangelsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikola Karabatic ræðir við fjölmiðlamenn.
Nikola Karabatic ræðir við fjölmiðlamenn. Vísir/Getty
Alls fimmtán aðilar voru í dag sektaðir vegna aðildar þeirra í veðbraski í tengslum við leik í frönsku úrvalsdeildinni vorið 2012. Þeirra á meðal eru fyrrum leikmenn Montpellier með Frakkann Nikola Karabatic fremstan í flokki.

Karabatic var sektaður um tíu þúsund evrur, jafnvirði tæpra 1,5 milljóna króna. Saksóknari fór fram á 30 þúsund evra sekt og þriggja mánaða fangelsi en Karabatic þarf ekki að taka út svo þunga refsingu.

Karabatic og aðrir aðilar tengdum honum, bæði leikmenn Montpellier og utanaðkomandi aðilar, voru dæmdir sekir um að veðjað á úrslit leiks liðsins gegn Cesson-Rennes sem leikmennirnir töpuðu svo viljandi. Montpellier var þá þegar búið að tryggja sér franska meistaratitilinn og hafði að engu að keppa.

Luka Karabatic, bróðir Nikola, fékk enn þyngri sekt eða 15 þúsund evrur. Mladen Bojanovic fékk hæstu sektina eða 30 þúsund evrur. Aðrir fengu tíu þúsund evra sekt en meðal þeirra eru Dragan Gajic, Primoz Prost, Samuel Honrubia og Issam Tej.

Unnustur Karabatic-bræðranna, Geraldine Pillet og Jeny Priez, voru einnig sektaðar um tíu þúsund evrur. Allir þurfa þar að auki að endurgreiða vinningsfé sitt með vöxtum.

Lögmaður Karabatic-bræðranna sagði í dag að þeir ætluðu að áfrýja dómnum.


Tengdar fréttir

Karabatic má aftur æfa með Montpellier

Franska handboltastjarnan Nikola Karabatic hefur fengið leyfi til að mæta aftur á æfingar hjá Montpellier en hann mátti ekki umgangast liðsfélagana á meðan rannsókn stöð á einu mesta hneykslismáli í sögu handboltans í Frakklandi.

Vildu gera vel við sig á Ibiza

Réttarhöld í veðmálahneyksli Karabatic-bræðra og fleiri handboltamanna áætluð á miðju þessu ári.

Leikbanni Karabatic aflétt | Dómsmálinu ólokið

Áfrýjunardómstóll franska handboltasambandsins aflétti í dag sex leikja banni Nikola Karabatic og tveggja annarra leikmanna vegna ásakana um veðmálasvindl og hagræðingu úrslita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×