Erlent

Drápið sem gerði allt vitlaust

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Cecil geispar ekki framar.
Cecil geispar ekki framar. Vísir/AFP
Dráp bandaríska tannlæknisins Walter James Palmer á ljóninu Cecil hefur vakið mikla athygli en hann er nú eftirlýstur af yfirvöldum í Zimbabwe. Búið er að handtaka leiðsögumann hans og landeiganda sem aðstoðaði við veiðina á Cecil. Eftir að málið vakti fyrst athygli hafa notendur á samfélagsmiðlum látið til sín taka.

Hvað gerðist?

Palmer og aðstoðarmenn hans lokkuðu Cecil út úr heimkynnum sínum í Hwange þjóðgarðinum í Zimbabwe þar sem ólöglegt er að veiða. Þeir freistuðu Cecil með því að festa dýrshræ við bíl á landareign fyrir utan þjóðgarðinn til þess að komast hjá veiðibanninu í garðinum. Þar skaut Palmer Cecil með lásboga en örinn særði aðeins dýrið. Við það hófst eltingarleikur sem stóð í 40 tíma en endaði með því að Palmer skaut Cecil með rifli. Cecil var svo afhöfðaður og fláður.

Afhverju eru allir brjálaðir?

Cecil var eitt frægasta ljón Afríku, helsta tákn og aðdráttarafl Hwange þjóðgarðsins í Zimbabwe. Cecil var sérstaklega vinsæll í Zimbawe, auðþekkjanlegur á sínum mikla svarta makka. Cecil var þó einnig vel þekktur utan landsteinanna. Vísindamenn við Oxford-háskóla sem rannsökuðu vernd ljóna í Zimbabwe höfðu m.a. skoðað Cecil í rannsókn sinni.

Einnig þykir aðferð Palmer og félaga við veiðina hafa verið ófyrirleitin en eins og fyrr sagði lokkuðu þeir Cecil úr vernduðum heimkynnum sínum. Löglegt er að veiða ljón í Zimbabwe en til þess þarf þó tilskilin leyfi. Yfirvöld í Zimbabwe telja að veiðimennirnir hafi ekki fengið þau leyfi sem til þarf og hafa handtekið leiðsögumanninn og landeigandann sem aðstoðaði við veiðina. Palmer er einnig eftirlýstur en hann hefur lýst yfir sakleysi sínu.

„Ég réði fagmenn til starfa til að aðstoða mig og þeir fengu öll leyfi sem til þar. Samkvæmt minni vitneskju var allt við ferð mína og það sem ég gerði í henni löglegt. Ég vissi ekki að ljónið sem ég veiddi hefði verið vel þekkt. Ég reiddi mig á þá þekkingu sem þeir heimamenn sem ég réði til að hjálpa mér bjuggu yfir“ sagði Palmer við Minnesota Star Tribune. Samstarfsmenn hans hafa einnig lýst yfir sakleysi sínu og segjast hafa verið með leyfi en Þjóðgarðsyfirvöld segja það ekki vera rétt.

Hver urðu viðbrögðin?

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fljótlega varð nafn Walter James Palmer að trend-i á heimsvísu á samfélagsmiðlinum Twitter enda kepptust menn um að lýsa yfir vanþóknum á drápinu á Cecil og óhætt er að segja að Palmer sé óvinsælasti maður jarðarinnar um þessar mundir:

Dýraverndunarsamtökin PETA kölluðu hreinlega eftir því að Palmer yrði hengdur en fjölmargir notendur Twitter voru á svipuðu máli: 

Menn voru ekki lengi að grafa upp að Palmer er mikill áhugamaður um veiðar á stórum dýrum í útrýmingarhættu:

Palmer rekur tannlæknastofu í bænum River Bluff í Minnesota en hún verið lokuð frá því að málið komst upp og búið er að negla fyrir alla glugga auk þess sem að syrgjendur Cecil hafa breytt stofunni í minnisvarða:

Notendur samfélagsmiðla voru fljótir að láta til sín taka. Facebook-síða tannlæknastofunnar fylltist af reiðum dýravinum sem skildu eftir athugasemdir og myndir á hverju einasta snitti sem birt hafði verið á síðunni. Facebook-síðunni hefur nú verið lokað.

Síða tannlæknastofunnar á umsagnarsíðunni Yelp fékk einnig að finna fyrir því en hver notandinn á fætur öðrum skildi eftir 5 stjörnu umsagnir þar sem Palmer og tannlæknastofa hans var rökkuð niður.

Ef notandi gefur 5 stjörnu umsögn verður hún sýnilegri en ella. Forsvarsmenn Yelp hófust þó handa við að taka niður þessar umsagnir enda er það brot á notendaskilmálum síðunnar að skilja eftir umsagnir sem byggja á fréttaflutningi en ekki eiginlegri reynslu af viðskiptum við þann aðila sem umsögnin er um.

Í yfirlýsingu frá Yelp segir að „Umsagnir á Yelp þurfa að vera lýsing á reynslu neytenda, ekki eitthvað sem menn lesa um í fréttum. Notendaþjónusta okkar eyðir ummælum sem ekki uppfylla þessi viðmið okkar.“

Ekki er vitað hvar Palmer heldur sig þessa dagana en hann hefur ráðið þjónustu almannatengils til þess að glíma við þetta mál fyrir sig.

Hér fyrir neðan má sjá nýjustu færslur sem eru merktar #CecilTheLion og #WalterPalmer á Twitter.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×