Erlent

Mullah Omar látinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Afar fáar myndir eru til af Mullah Omar
Afar fáar myndir eru til af Mullah Omar Vísir/Getty
BBC greinir frá því að Mullah Omar, leiðtogi Talibana í Afganistan, hafi látist fyrir 2-3 árum síðan. Oft hefur verið greint frá meintu andláti Mullah Omar en aldrei áður hefur það verið staðfest af háttsettum heimildarmönnum innan afganskra stjórnkerfisins líkt og nú.

Mullah Omar leiddi Talibana til sigurs í borgastyrjöldinni sem hófst eftir að Sovétmenn yfirgáfu Afganistan árið 1989. Bandalag hans og Osama Bin Laden leiddi til innrásar Bandaríkjanna og bandamanna í Afganistan árið 2001.

Hefur Mullah Omar verið í felum síðan en bandaríska utanríkisráðuneytið lofaði 10 milljón dollara verðlaunafé fyrir upplýsingar sem myndu leiða til handtöku eða dauða hans.

Undanfarin ár hafa Talibanar gefið út margvíslegar yfirlýsingar frá Mullah Omar, sú síðasta kom um miðjan júlí þar sem leiðtoginn lýsti yfir stuðningi við friðarviðræður Talibana og afganskra stjórnvalda. Skilaboðin voru hinsvegar aðeins í textaformi en ekki á mynd- eða hljóðformi sem leiddu til orðróma um að leiðtogi Talibana væri látinn, líkt og nú hefur verið staðfest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×