Fótbolti

Aron og félagar úr leik í Gullbikarnum eftir sögulegt tap

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Jóhannsson getur ekki horft á Jamaíku fagna fyrra marki sínu í kvöld.
Aron Jóhannsson getur ekki horft á Jamaíku fagna fyrra marki sínu í kvöld. vísir/getty
Bandaríska landsliðið í fótbolta fær ekki tækifæri til að verja Gullbikarinn á heimavelli, en liðið féll úr leik í kvöld þegar það tapaði gegn Jamaíka, 2-1, í undanúrslitum keppninnar.

Tapið er sögulegt því aldrei í 24 ára sögu Gullbikarins hefur annað lið en Brasilía, Kólumbía eða Mexíkó slegið Bandaríkin úr keppni. Bandaríkin hafa unnið keppnina fimm sinnum.

Jamaíka skoraði tvívegis á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik. Darren Mattocks kom Jamaíku í 1-0 á 31. mínútu og á 36. mínútu tvöfaldaði Giles Barnes forystuna og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var aðeins þriggja mínútna gamall þegar Bandaríkin minnkuðu muninn, en það gerði Michael Bradley. Hann fylgdi eftir skoti Clint Dempseys, en Aron Jóhannsson átti upphaflega skot á markið sem markvörðurinn hélt ekki.

Aron fékk tvö tækifæri til að skora í leiknum en tókst ekki að koma boltanum í netið. Honum var síðan skipt af velli á 73. mínútu.

Þrátt fyrir stífar sóknarlotur bandaríska liðsins tókst því ekki að jafna leikinn og Jamaíka því komið í úrslitaleikinn. Þar mætir liðið annað hvort Mexíkó eða Panama, en seinni undaúrslitaleikurinn fer fram seinna í nótt.

Þetta eru mikil vonbrigði fyrir bandaríska liðið sem ætlaði sér svo sannarlega að verða meistari á heimavelli, en í kvöld var spilað í Georgia Dome í Atlanta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×