Erlent

Áætlun um lokun Guantanamo-fangabúðanna sögð á lokastigi

Bjarki Ármannsson skrifar
Aðbúnaður og meðferð fanga í Guantanamo hefur oft verið harðlega gagnrýnd.
Aðbúnaður og meðferð fanga í Guantanamo hefur oft verið harðlega gagnrýnd. Vísir/AFP
Áætlun ríkisstjórnar Barack Obama Bandaríkjaforseta um lokun fangabúðanna í Guantanamo er sögð á lokastigi og er von á að hún verði send Bandaríkjaþingi á næstunni. Obama hét því að loka búðunum þegar hann var fyrst kjörinn forseti árið 2008.

Það var George Bush yngri, forveri Obama í starfi forseta, sem hóf að nota fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu til að vista grunaða hryðjuverkamenn í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana í New York árið 2001.

Aðbúnaður og meðferð fanga í búðunum hefur oft verið harðlega gagnrýnd en fangar sem hafa dvalið þar hafa meðal annars lýst pyntingum af hálfu fangavarða. Obama hefur bent á að fangabúðirnar skaði ímynd Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og lofaði því í kosningabaráttum sínum árin 2008 og 2012 að þeim yrði lokað.  

Það hefur reynst honum þrautin þyngri að standa við þau orð, en forsetinn hefur mætt mikilli andstöðu bandaríska þingsins í hvert sinn sem ríkisstjórn hans hefur reynt að koma í gegn lagasetningu á búðirnar. Obama á nú innan við átján mánuði eftir í Hvíta húsinu og er hann talinn leggja mikla áherslu á að loka búðunum og senda fangana annað áður en kjörtímabil hans rennur út.

Að því er fréttaveitan Bloomberg hefur eftir Josh Earnest, upplýsingafulltrúa Hvíta hússins, miðar áætlun forsetans að því að loka fangabúðunum í Guantanamo á sem öruggastan og ábyrgastan máta.


Tengdar fréttir

Í Guantanamo án dóms og laga í sex ár

Ástralinn David Hicks var dæmdur í sjö ára skilorðsbundið fangelsi árið 2007 eftir að hann játaði fyrir herrétti að hafa liðsinnt hryðjuverkamönnum.

Guantanamo-fangi lýsir pyntingum

Dagbækur manns, sem enn er fangi í Guantanamo-búðunum, hafa nú komið út á bók. Þær voru skrifaðar árið 2005 en fyrir þremur árum fengu lögmenn hans leyfi til að fá þær afhentar. Engin áform eru um að gefa út ákærur á hendur honum.

Stjórnvöld ritskoðuðu dagbókina

Mohamedou Slahi skrifaði dagbók um vist sína í Guantanamo-fangabúðunum árið 2005 og það hefur tekið sjö ár fyrir lögfræðinga hans að fá hana samþykkta til útgáfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×