Erlent

Ljósmóðir ákærð fyrir að reyna að myrða níu konur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Málið komst upp eftir að sjúklingur lagði fram kvörtun á spítala þar sem konan vann á síðasta ári.
Málið komst upp eftir að sjúklingur lagði fram kvörtun á spítala þar sem konan vann á síðasta ári. vísir/getty
Ljósmóðir í Munchen í Þýskalandi hefur verið ákærð fyrir tilraun til manndráps en hún er sökuð um að hafa gefið alls níu konum blóðþynningarlyf skömmu eftir að þær fæddu börn sín. Konurnar misstu í kjölfarið svo mikið blóð að þær voru í lífshættu og var bjargað af bráðalæknum.

Saksóknarar í Munchen telja að ljósmóðirin hafi verið ósátt við aðstæður í vinnu sinni og gjörðir hennar séu afleiðingar þess.

Málið komst upp eftir að sjúklingur lagði fram kvörtun á spítala þar sem konan vann á síðasta ári. Rannsókn leiddi í ljós þrjú önnur mál á þeim spítala og svo fimm önnur tilfelli á spítala þar sem konan hafði unnið áður á árunum 2011-2012.

Ekki er talið að neitt þeirra barna sem málin snúa að hafi skaðast og konurnar lifðu allar af.

Hátt í 100 vitni verða leidd fyrir dóminn en ekki liggur fyrir hvenær réttarhöldin hefjast. Ljósmóðirin er í haldi lögreglu en hún hefur staðfastlega neitað sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×