Innlent

Könnuðu úrræði fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis á þjóðhátið

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tvær konur, sem fóru á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum til að kanna þau úrræði sem eru í boði fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis, segja að þörf sé á samstilltu átaki á útihátíðum hér á landi gegn kynferðisofbeldi. Þórhildur Þorkelsdóttir veit meira.

Þær Brynhildur Yrsa Guðmundsdóttir og Steinunn Ýr Einarsdóttir ákváðu að fara í dagsferð á Þjóðhátíð í kjölfar ummæla lögreglustjórans Páleyjar Borgþórsdóttur um að ekki ætti að veita fjölmiðlum upplýsingar um þau kynferðisbrot sem kynnu að koma upp á hátíðinni.

„Þetta var kannski svolítið punkturinn yfir i-ð og það sem kom okkur á stað,“ segir Steinunn Ýr Einarsdóttir. „Við vorum búin að ræða að fara af stað og sjá hvað er í boði fyrir þá sem verða fyrir kynferðisofbeldi og hvað er verið að gera í forvörnum.“

Þær segja að þeim hafi verið vel tekið af skipuleggjendum Þjóðhátíðar.

„Við fórum og fengum Viktor sem er yfir gæslunni til að fara með okkur og hann sýndi okkur hana og hvernig skipulagið er hjá þeim. Þeir mennta þá sem eru í gæslunni en ekki sérstaklega til að takast á við slík brot. Það var líka okkar upplifun að það væri mikið af ungum krökkum í henni. Við hefðum viljað fleira faglegt fólk í henni,“ segir Steinunn.

Brynhildi var hópnauðgað á Þjóðhátíð fyrir átján árum og hafði lengi langað að kanna hvað mætti betur fara varðandi úrræði fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis á útihátíðum. Eftir ferðina til eyja telur hún þörf á samstilltu átaki.

„Samstillt átak en ekki að hver og ein hátíð sér að standa í sínu hver í sínu horni. Það þurfa allir að standa saman og hafa þetta eins,“ segir Brynhildur.

Þær segja að það sé á ábyrgð þeirra sem halda útihátíðir að svæðið sé sem öruggast.

„Við fengum að sjá kamrana og þar var búið að setja sérstaka kamra fyrir konur því það hafði orðið alvarlegt brot á þeim. Við hliðina á þeim voru almennir kamrar. Ég vil sjá meira en vil taka það fram að það væri að gera helling en það þarf að gera meira,“ segir Steinunn.


Tengdar fréttir

Lögreglustjórinn stendur við þögn um kynferðisbrot

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum stendur við ákvörðun sína um bann við upplýsingum til fjölmiðla um möguleg kynferðisbrotamál á þjóðhátíð. Talskona Stígamóta segir það valda sérstökum áhyggjum að lögreglustjórinn hafi ekki betri skilning á eðli kynferðisbrota og hvernig beri að fara með þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×