Erlent

Ólögleg lyfjanotkun miklu útbreiddari en talið var

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Gögn sem eru sögð sýna að ólögleg lyfjanotkun sé algeng meðal frjálsíþróttafólks var lekið til fjölmiðla. Niðurstöðurnar eru sagðar sláandi.

Ólögleg lyfjanotkun er útbreidd meðal keppenda á stærstu frjálsíþróttamótum heims. Gögnum sem sögð eru vera frá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu IAAF, og innihalda niðurstöður rannsókna á blóðsýnum úr 5000 frjálsíþróttamanneskjum, var lekið til fjölmiðla á dögunum. Samkvæmt þeim innihélt 1 af hverjum 7 blóðsýnum vafasöm efni.

Í frétt Sunday Times af málinu kemur fram að fengnir hafi verið tveir af helstu sérfræðingum heims til þess að fara yfir gögnin og þykja niðurstöðurnar sláandi.

Í gögnunum er að finna niðurstöður rannsókna á 12 þúsund blóðsýnum úr 5 þúsund keppendum í frjálsíþróttum sem þykja benda til að notkun blóðgjafar og EPO-lyfsins, sem eykur súrefnisupptöku blóðsins, fer vaxandi meðal frjálsíþróttafólks.

Sýnin voru tekin á stórmótum á árunum 2001 til 2012. Samkvæmt Sunday Times þá telja sérfræðingarnir sig geta ráðið það af gögnunum að 146 verðlaun sem veitt voru í langhlaupum og göngugreinum á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum á þessum árum, þá hafi fundist vafasöm efni í blóðsýnum. Um er að ræða 55 gullverðlaun sem veitt voru á tímabilinu í þessum greinum, og um þriðjungur allra verðlauna í greinunum. Enginn þessara verðlaunahafa hefur verið sviptur verðlaunum.

Sýnin sem slík eru þó ekki haldbær sönnun á að lyfjamisnotkun eigi sér stað en samkvæmt sérfræðingunum þá þykja þau sýna að lyfjanotkun sé meiri en áður sé talið í frjálsíþróttum.

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum fer fram í Peking í lok þessa mánaðar og gætu afhjúpanirnar varpað skugga á mótið en einnig verður kosið um nýjan forseta sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×