Erlent

Grískur ráðherra segir ljóst að ríkisstjórnin þurfi að fá traustsyfirlýsingu frá þinginu

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras tók við embætti forsætisráðherra Grikklands í janúar síðastliðinn eftir að Syriza vann stórsigur í kosningum og hefur hann staðið í stórræðum síðan.
Alexis Tsipras tók við embætti forsætisráðherra Grikklands í janúar síðastliðinn eftir að Syriza vann stórsigur í kosningum og hefur hann staðið í stórræðum síðan. Vísir/AFP
Gríska ríkisstjórnin mun líklega fá grískan þingheim til að greiða atkvæði um traustsyfirlýsingu við ríkisstjórnina innan skamms.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Gríski orkumálaráðherrann Panos Skourletis segir það liggja í augum uppi að boða verði til slíkrar atkvæðagreiðslu í kjölfar þess að þriðjungur þingflokks Syriza-flokks Alexis Tsipras forsætisráðherra sat hjá eða greiddi atkvæði gegn samningi grískra stjórnvalda við lánardrottna sína á föstudaginn.

Tsipras neyddist til að reiða sig á stuðning stjórnarandstöðuþingmanna til að ná fram stuðningi við samkomulagið.

Vinstrisinnuðustu þingmenn flokksins hafa ekki sýnt nein merki um að þeir muni styðja þær niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir sem Grikklandsstjórn hefur nú heitið að ráðast í í skiptum fyrir 86 milljarða evra lán.

Skourletis segir í samtali við Reuters vel mögulegt að boðað verði til þingkosninga, lýsi meirihluti þings yfir vantrausti á stjórn Tsipras.

Panagiotis Kouroublis heilbrigðisráðherra hefur einnig látið hafa eftir sér að nýjar kosningar væru góð leið til að ná fram pólitískum stöðugleika í landinu.

Samningurinn við Grikki felur í sér að þeir fá samtals 86 milljarða evra, eða jafnvirði rúmlega 12.000 milljarða króna. Á móti þurfa Grikkir að hagræða enn frekar í ríkisrekstri með því meðal annars að selja ríkiseignir, herða skattheimtu, hætta að greiða bændum eldsneytisstyrki og hækka lífeyrisaldur, svo nokkuð sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×