Innlent

Gerðardómur mun hafa áhrif á kjaraviðræður VM

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna gerir ráð fyrir því að úrskurður Gerðardóms í kjaradeilu ríkisins við Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga muni hafa áhrif á kjaradeilu VM við Samtök atvinnulífsins.

„Auðvitað munum við horfa til úrskurðar Gerðardóms í viðræðum okkar við vinnuveitendur. Í mínum huga er mörgum stórum spurningum ósvarað, það er að segja hvaða hópum á að skammta hækkanir og hverjum ekki. Samkvæmt úrskurði gerðardóms eru samningarnir afturvirkir, ekki var samið um slíkt á almennum vinnumarkaði. Þessi úrskurður hefur klárlega áhrif á komandi kjaraviðræður.“

Félagsmenn í Félagi vélstjóra og málmiðnarmanna hafa fellt almenna kjarasamninga í tvígang, síðast í júlí sl. Viðræður vegna kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins eru hafnar hjá sáttasemjara. Guðmundur segir að félagsmenn séu mjög óánægðir með kjör sín og rekja megi skort á endurnýjun í geiranum til lélegra kjara.

„Atvinnurekendur verða að taka tillit til þess að samningar hafa ítrekað verið felldir og nú síðast með mjög afgerandi hætti. Það hefur verið viðvarandi skortur á fólki í vél og málmtæknigreinum og unga fólkið fer ekki í þessar greinar. Helsta ástæðan er að mínu viti kjörin sem bjóðast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×