Innlent

Segir vændi stundað vegna eftirspurnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir að leyfa fólki að ráðstafa eigin eigin líkama og tíma án afskipta annarra. Svo lengi sem fólk hagai sér innan marka laga og almenns velsæmis. Rætt var við Hannes í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hannes hefur fengið á sig mikla gagnrýni síðustu daga fyrir að tala um vændi sem „atvinnutækifæri“ á Facebook síðu sinni í tengslum við samþykkt Amnesty International um afglæpavæðingu vændis.

„Ég verð nú að segja það að umræðan hefur ekki verið nægilega hófstillt hjá sumum, sérstaklega ekki hjá öfgafemínistum. Vegna þess að það sem vakir nú fyrir öllu skynsömu og réttsýnu fólki er að gæta hagsmuna ógæfusamra kvenna.“

Til þess nefnir Hannes tvær leiðir. Hann segir annan þeirra vera að reka konurnar niður í neðanjarðarstarfsemi, eins og sé í sumum löndum. „Þar sem þær eru háðar verndurum, það verða smitsjúkdómar, það verða alls konar aðrir hlutir sem gerast. Mansal og þrælahald. Þetta er annar kosturinn.“

Hinn kosturinn segir Hannes að sé gera vændi leyfilegt og þá sé hægt að vernda vændiskonur frá kúgun, mansali og þrælahaldi. Varðandi það að hafa sölu vændis löglega og kaupin ekki, segir Hannes að um leið og þessi verknaður sé gerður ólöglegur sé verið að reka hann niður í einhver neðanjarðarbyrgi og gera konurnar sem stunda vændi að fórnarlömbum.

Sjá einnig: Blöskrar skoðun Hannesar: „Líkaminn er ekki bílaleiga eða tívolí“

Vændi hverfur ekki með ályktunum

„Það er miklu eðlilegra að viðurkenna þetta og átta sig á því að jafnvel þó að við viljum nú gjarnan að vændi myndi hverfa, þá hverfur það ekki þó við semjum óskalista eða samþykkjum einhverjar ályktanir. Ástæða þess að vændi er stundað er að það er eftirspurn eftir því.“

Þá segir Hannes að sumir telji að menn eigi sjálfir rétt á að ráðstafa eigin líkama og sínum tíma án afskipta annarra.

„Það er einkennilegt til dæmis, ef ég og þú værum í hörku rifrildi um hvað þriðji maðurinn eigi að fá að gera. Svo framarlega sem þessi þriðji maður er ekki að skaða aðra með framferði sínu. Mér finnst að við megum aldrei gleyma þessu lögmáli að leyfa fólki að ráða sér sjálfu innan marka laga og almenns velsæmis.“

Hlusta má á viðtalið við Hannes í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir

Ætla ekki að gera vændisstefnu að baráttumáli á Íslandi

Framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty segir að útgangspunktur umdeildrar tillögu um lögleiðingu vændis sé að vernda mannréttindi vændisfólks. Fjöldi fólks hefur sagt sig úr Íslandsdeildinni vegna tillögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×