Erlent

Gröf Nefertiti mögulega fundin

Atli Ísleifsson skrifar
Drottningin Nefertiti var uppi á 14. öld fyrir Krists burð.
Drottningin Nefertiti var uppi á 14. öld fyrir Krists burð. Mynd/Wikipedia
Nefertiti drottning er ein umtalaðasta manneskja faraótímabilsins í Egyptalandi en gröf hennar hefur aldrei fundist. Breski fornleifafræðingurinn Nicholas Reeves fullyrðir hins vegar nú að gröfin hafi ávallt verið svo gott sem fyrir augum fólks – í herbergi inn af grafhýsi Tútankamons.

„Hvert sönnunargagn fyrir sig sker ekki eitt og sér úr um málið, en séu þau öll lögð saman er erfitt að hrekja niðurstöðu mína. Ef ég hef rangt fyrir mér þá er það svo, en ef ég hef rétt fyrir mér þá er þetta mögulega merkasti fornleifafundur allra tíma,“ segir Reeves í samtali við Economist.

Allt frá því að gröf Tútankamons fannst í egypska Konungsdalnum 1922 hafa sérfræðingar velt því fyrir sér af hverju gröfin sé svo hlutfallslega lítil. Reeves, sem starfar við Háskólann í Arizona, vill meina að gröfin hafi upphaflega verið ætluð konu.

Í frétt Economist kemur fram að eftir að Reeves hafði rannsakað nákvæmar myndir úr gröf Tútankamon hafi hann bent á að sprungur í veggjum bendi til að lokað hafi verið fyrir tveimur leynigöngum inn af gröf Tútankamons. Ein göngin eigi að hafa leitt í annað rými og hin í gröf Nefertiti.

Nefertiti var uppi á 14. öld fyrir Krist og var gift faraónum Akenaton. Hún er ýmist sögð hafa verið sögð móðir, föðursystir, tengdamóðir eða stjúpmóðir Tútankamon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×