Menning

Unglingsstelpur taka völdin

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ásrún og unglingsstelpurnar tjá unglingsárin í dansi í sýningunni GRRRRRLLLLSSS.
Ásrún og unglingsstelpurnar tjá unglingsárin í dansi í sýningunni GRRRRRLLLLSSS.
Verkið fjallar um það að vera unglingsstelpa og er flutt og samið af unglingsstelpum. Ég samdi það með þeim en þær flytja það,“ segir dansarinn og danshöfundurinn Ásrún Magnúsdóttir um verkið GRRRRRLLLLSSS. Verkið verður frumsýnt í dag í Gamla bíói og er hluti af Reykjavík Dance Festival sem stendur yfir fram á sunnudag. Unglingsárin eru höfundinum hugleikin enda segir hún þetta vera spennandi aldur þar sem maður er ekki lengur barn en ekki orðinn fullorðinn, í einhvers konar millibilsástandi.

„Þetta er óður til unglingsáranna,“ segir Ásrún. „Verkið er fyrir allar unglingsstelpur í dag, allar konur sem hafa verið unglingsstelpur, allar stelpur sem eiga eftir að vera unglingsstelpur. Og alla menn sem verða aldrei og hafa aldrei verið unglingsstelpur.“

Hugmyndin kviknaði hjá Ásrúnu í vetur og var hennar eigin reynsla af unglingsárunum henni einnig hugleikin, auk þess sem hún hafði verið að kenna unglingsstúlkum dans í Listdansskóla Íslands en Ásrún er útskrifaður dansari frá Listaháskóla Íslands og hefur sett upp nokkur dansverk.

„Ég var líka mikið að hugsa þetta út frá því að það er búin að vera svo mikil femínísk bylgja í gangi á Íslandi,“ segir hún og vísar þar í Beauty tips-­byltinguna og Freethenipple þar sem konur á öllum aldri losuðu sig við skömmina. Hún vildi vita hvort unglingsstelpur væru að velta fyrir sér byltingunum og skilaboðum þeirra.

„Mig langaði að sjá hvernig er fyrir yngri stelpurnar að verða fyrir þeim. Þær eru ekki komnar úr að ofan á ­Twitter, eru ekki í Reykjavíkurdætrum eða eitthvað þannig. Mig langaði að vita hvað þær hefðu að segja um þetta og hvernig þær upplifðu þetta,“ segir hún.

Og hvernig upplifðu þær þessa byltingu? „Þær eru að vissu leyti mjög meðvitaðar en að öðru leyti ekki. Mér fannst það jákvætt því þær finna ekki fyrir því sérstaklega að þær þurfi að berjast fyrir því að vera konur enda eru þær þarna mitt á milli, enn börn í rauninni. En þær eru samt líka baráttukonur.

Í vor auglýsti Ásrún því eftir unglingsstelpum til þess að skapa dansverk með henni. Viðbrögðin voru vonum framar – um fimmtíu stelpur á aldrinum 13–16 ára komu, allar máttu vera með en einhverjar duttu úr hópnum og ­tuttugu standa eftir. Í sameiningu sömdu þær verkið sem þær sýna í dag. Stelpurnar eru með mismunandi bakgrunn, sumar hafa æft dans og aðrar ekki. „Sumar hafa aldrei dansað eða komið fram. Þetta er skemmtileg blanda. Það er heilmikið afrek að standa á sviði í heilan klukkutíma.“

Verkið verður sýnt tvisvar í dag, laugar­dag. Fyrri sýningin er klukkan 15 og sú seinni klukkan 19.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.